Heimsmeistaramót Hverjir tryggja sér sæti í úrslitum eftir viku?

  • 31. júlí 2025
  • Fréttir

Sara Sigurbjörnsdóttir og Flóki frá Oddhóli unnu fimmgangi á HM 2023 Mynd: Bert Collet

Eftir nákvæmlega viku verður keppt í fimmgangi á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Sviss. 

Sara Sigurbjörnsdóttir er ríkjandi heimsmeistari í fimmgangi á Flóka frá Oddhóli en fyrir síðasta mót hafði knapi í íslenska landsliðinu ekki unnið fimmganginn síðan 2007 þegar Þórarinn Eymundsson vann hann á Krafti. Fimmgangur er vandasöm grein að ríða og oft ráðast úrslitin á skeiðinu. Það mun verða hart barist um titilinn í ár og fyrirfram er óhætt að segja að í úrslitum verði knapar frá Austurríki, Íslandi og Þýskalandi en löndin eru að senda frá sér gríðar sterka fulltrúa.

Haldið er áfram að spá í spilin fyrir mótið og nefnum nokkur af líklegustu pörunum til að blanda sér í toppbaráttuna í fimmgangi. Listinn er m.a. byggður á stöðulista ársins og árangri þeirra á meistaramótum í sínu heimalandi í ár.

Anne Frank Andersen og Vökull frá Leirubakka keppa fyrir Dani en þau hafa hæst farið í 7,33 í forkeppni. Vökull er 14 vetra undan Héðni frá Feti og Emblu frá Árbakka. Ræktandi er Anders Hansen og er Anne Frank eigandi.

Carina Piber keppir fyrir hönd Austurríkis á honum Milljarði frá Stóra-Aðalskarði. Milljarður er 9 vetra undan Aðli frá Nýjabæ og Perlu frá Neðra-Skarði. Ræktandi er Verena Tschuchnig og eigandi er Lisa Alexandra Reischl. Carina og Milljarður hafa hæst farið í 7,50 í forkeppni í ár.

Elvar Þormarsson og Djáknar frá Selfossi keppa fyrir hönd Íslands í fimmgangnum en Elvar varð heimsmeistari í gæðingaskeiði og 250 m. skeiði á síðasta móti á Fjalladís frá Fornusöndum. Djáknar er undan Arion frá Eystra-Fróðholti og Diljá frá Hveragerði en ræktendur eru þeir Árni Sigfús Birgisson og Davíð Sigmarsson og eigandi er Von Blinkenberg. Í ár hafa þei Elvar og Djáknar farið hæst í 7,07 í forkeppni en þeirra hæsta einkunn er 7,33.

Þjóðverjar tefla fram þremur knöpum í fimmganginn, þeim Frauke Schenzel á Óðni vom Habichtswald, Lisu Schürger á Byr frá Strandarhjáleigu og Lena Maxheimer á Abel fra Nordal. Frauke og Óðinn eru þýskir meistarar í greininni og hafa farið í 7,60 í forkeppni. Óðinn er 15 vetra undan Fannari frá Kvistum og Óskadís vom Habichtswald. Ræktandi er Maria-Magdalena Siepe-Gunkel en eigendur eru Anja Egger-Meier og Kronshof GbR.

Lisa og Byr hafa hæst farið í 7,53 í forkeppni og eru þýskir meistarar í samanlögðum fimmgangsgreinum og standa einmitt efst á þeim lista með 7,51 í einkunn. Byr er 13 vetra undan Sjóði frá Kirkjubæ og Bylgju frá Strandarhjáleigu. Ræktandi er Elvar Þormarsson og eigandi er Silvia .

Hæst hafa Lena og Abel farið í 7,40 í fimmgangi í forkeppni og eru þau að keppa í samanlögðum fimmgangsgreinum og eru þriðju á heimslistanum í ár. Abel er 12 vetra undan Gandálfi frá Selfossi og Drottningu frá Ytri-Löngumýri. Ræktandi er Ingolf Nordal og eigendur eru Emil Skovsende og Meiersberger Gbr, Skovsende und Maxheimer.

Glódís Rún Sigurðardóttir varð heimsmeistari í fimmgangi í ungmennaflokki á síðasta móti og mætir nú í fullorðinsflokkinn á Snillingi frá Íbishóli. Snillingur er 15 vetra undan Vafa frá Ysta-Mói og Ósk frá Íbishóli. Ræktandi er Magnús Bragi Magnússon og Elisabeth Jansen en eigendur eru Anja Egger-Meier og Icehorses GmbH Ochsenreiter Egli Silvia. Hæst hafa þau Glódís og Snillingur farið í 7,53 í einkunn í forkeppni.

Efstir á WR listanum í ár eru Pierre Sandsten Hoyos og Goðasteinn frá Haukagili, Hvítársíðu en þeir keppa fyrir hönd Austurríkis. Hæst hafa þeir farið í 7,97 í forkeppni og eru austurrískir meistarar í greininni. Goðasteinn er 10 vetra undan Óskasteini frá Íbishóli og Kötlu frá Steinnesi en ræktandi er Magnús Jósefsson og eigandi er Birgir Már Ragnarsson.

Þriðja parið til að taka þátt í fimmgangi fyrir Íslandshönd eru þeir Þórarinn Ragnarsson og Herkúles frá Vesturkoti. Herkúles er 9 vetra undan Spuna frá Vesturkoti og Heklu frá Miðsitju en ræktandi er Finnur Ingólfsson. Í ár hafa þeir hæst fengið 7,27 í einkunn í forkeppni.

Hvort það verði þau pör sem nefnd eru hér að ofan sem skipta með sér efstu sætunum í fimmgangi eða hvort einhverjir aðrir komi á óvart, mun koma í ljós þegar forkeppni og úrslit í fimmgangi fara fram í Sviss og það er alveg á hreinu að hart verður barist um sigurinn.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar