138 daga ferðalag á hestum yfir endilangan Noreg

  • 10. nóvember 2025
  • Fréttir

Myndin tekin í Nordkapp í norður Noregi á síðasta degi hinnar löngu ferðar. Signe Tyholt er til vinstri á myndinni og Signe N. Morstøl til hægri ásamt sex hrossum þeirra.

Tveir norskir ofurhugar ferðuðust um Noreg á hestum og þar af þremur íslenskum hrossum

Tveir norskir eldhugar þær, Signe N. Morstøl og Signe Tyholt, lögðu af stað í langreisu á hrossum þann 28.apríl á þessu ári og lauk ferð þeirra 138 dögum seinna þann 12.september. Markmiðið var að ríða Noreg endilangan frá syðsta punkti Noregs, Lindesnes allt norður í Nordkapp með þeim í för voru sex hross og þar á meðal þrír íslenskir hestar.

Signe Tyholt (t.v.) Signe N. Morstøl (t.h.) við upphaf ferðalagsins í Lindesnes

„Þetta byrjaði sem draumur um að ríða eins langt og hægt væri í Noregi, vera með hestunum allan daginn og sjá hverju við gætum áorkað saman.“ Hugmyndin kveiknaði árið 2021 hjá Signe Morstøl  eftir 16 daga ferð á hestbaki. „Eftir það fór ég að hugsa, af hverju ekki að fara lengra.“ Það var svo þegar hún kynntist nöfnu sinni Signe Tyholt sem hafði lengi gengið með þá hugmynd í brjósti sér að ríða frá syðsta hluta Noregs og til norðurs sem boltinn fór að rúlla.

Allan búnað reiddu þær með sér á klyfjahestum

Áskoranir vegna veðurfars og árstíða

Eftir að hafa undirbúið ferðina vel og komið sér upp réttum búnaði lögðu þær í hann. Þrír íslenskir hestar voru með í för en auk þeirra tveir kaldblóðs brokkarar og einn Norskur fjarðarhestur, hvor þeirra um sig hafði því tvo reiðhesta til skiptanna og einn klyfjahest því allan búnað reiddu þær með sér og sváfu í tjaldi. Hvor klyfjahestur um sig reiddi því á hverjum degi 50-70 kíló. „Noregur hefur ekki beint upp á það að bjóða að maður sé alltaf á þægilegum reiðgötum. Leiðirnar voru ansi oft ógreiðfærar vegna stórgrýtis, brattra fjalla og blautra mýra. Við vorum mjög oft utan símasambands og þurftum því að treysta algjörlega á okkur sjálfar.“ Allar járningar og annað sem upp á kom þurftu þær að gera sjálfar en nokkrum sinnum á leiðinni tóku þær sér eins til nokkurra daga pásur og fylltu þá á aðföng og undirbjuggu sig fyrir það sem framundan væri. Erfiðast var þó að skipuleggja hvern ferðadag með það í huga að hestarnir kæmust í fóður/beit sérstaklega snemma vors þegar gróður var ekki sprottinn.

„Við áttum ótrúlega góð samskipti við fólk sem hjálpaði okkur fyrstu mánuðina þá héldum við okkur nærri byggð og gistum oft á stöðum þar sem hestarnir komust auðveldlega í beit. Síðar þegar við fórum hærra upp í fjöllin, notuðum við kort til þess að finna grasi gróna bletti til þess að beita hestunum og gista yfir nóttina. Hestarnir eru svo ótrúlega glöggir að finna sér beit sjálfir og við leyfðum þeim oft að ráða för og stöðvuðum og beittum þar sem þeir vildu stoppa.“

Hvíld að góðu dagsverki loknu á grónum stað í fjalllendi Noregs

Þegar að vandamál vegna kulda og gróðurleysis voru að baki tók við nýtt vandamál. „Um hásumarið varð mjög heitt, allt að 3o stiga hiti og varði það í nokkrar vikur. Þessu fylgdi fluga sem pirraði hrossin mjög, að okkar mati var þetta erfiðasti tíminn. Við reyndum að ferðast á nóttunni til þess að verja hestana fyrir hitanum, en því miður var líka erfitt að fá þá til að finna ró og bíta á daginn þegar hitinn var hvað mestur. Þess til viðbótar áttum við erfitt með að sofa á daginn í tjaldinu vegna hita og ekki var það auðveldara úti við vegna flugu.“ 

Þá segjast þær stöllur hafa mikið lagt upp úr því að hestarnir hefðu það sem best og það hafi verið stöðug vinna að fylgjast með að búnaðurinn færi vel á hestunum og að þeir héldu heilbrigði. „Hestarnir breyttust mikið á þessu tímabili brenndu fitu og byggðu upp vöðva og allir komust þeir heilir frá þessu og í toppformi. Það er því óhætt að segja að ferðin hafi gengið að langmestu vel að undanskildum þessum áskorunum sem við mættum og fórum yfir hér á undan.“

Íslenski hesturinn besti ferðafélaginn

Það er ekki hægt að ræða við þessa ferðagarpa án þess að spyrja þær út í þeirra upplifun af íslenska hestinum í langferðum sem þessum. „Íslenski hesturinn er í okkar huga besti ferðafélaginn. Hann fer vel með mann og er mjúkgengur, býr yfir rólegu geðslagi en er ásækinn og viljugur þegar farið er yfir hrjóstrugt landslag. Framhugsunin og viljinn í þeim eru þeirra bestu þættir og ég fullyrði að ef við hefðum ekki haft íslenska hesta með okkur hefðum við þurft einn til tvo mánuði til viðbótar til þess að komast á endastöð.“

 

Við erum ekki byrjaðar að plana slíka langferð og þessa aftur en erum þegar byrjaðar að undirbúa tveggja vikna hestaferð næsta sumar, ef við fáum frí frá vinnu. Noregur er gullfallegt land og hefur upp á margar fallegar leiðir að bjóða og okkur langar að ferðast meira um landið okkar og njóta þess af hestbaki.“ Þá dreymir þær báðar um að komast til Íslands í hestaferð og fá að upplifa það sem þær hafa heyrt svo mikið um. „Ég held að alla þá sem eiga íslenska hesta dreymi um að fá að ferðast á þeim í þeirra heimalandi.“ 

Kortið sýnir gróflega frá þeirri leið sem riðin var frá suðri til norðurs

Hægt er að sjá fleiri myndir og lesa nánar um ferðasögu þeirra á Facebook síðu sem þær halda úti með því að smella hér.

 

 

 

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar