16 ára stúlka lést í slysi á hrossaræktarbúi

Myndin tengist efni fréttarinnar ekki.
Slysið átti sér stað á Stald Gavnholt, sem er hrossaræktarbú og þjálfunarstöð fyrir íslenska hesta rétt fyrir utan Silkeborg en þetta staðfesti Agnar Snorri Magnússon staðarhaldari í samtali við Vísi.
„Við erum miður okkar vegna þessa hræðilega slyss sem átti sér stað á jörðinni okkar í gær. Hugur okkar er hjá fjölskyldu og vinum Silju,“ segir í færslu á samfélagsmiðlum Stald Gavnholt.
„Allir hjá Stald Gavnholt syrgja þessa ungu yndislegu stúlku sem unni hestum og fyllti þá sem umgengust hana af ánægju. Við erum þakklát fyrir hlýhug og stuðninginn frá hestasamfélaginu.“
Danska ríkisútvarpið greinir frá því að samkvæmt lögreglu var stúlkan að teyma tvö hross þegar annað þeirra fælist. Svo virðist sem stelpan hafi flækst í taumunum og dróst nokkur hundruð metra eftir jörðinni á eftir hrossinu. Sjúkralið var kallað til en stúlkan var úrskurðuð látin á staðnum.
Efnt hefur verið til fjáröflunar fyrir fjölskyldu stúlkunnar en fyrirhugað er að fjármagninu verði til að mynda varið í jarðarför og minningarstund.