20 knapar í landsliðshópi Íslands í hestaíþróttum
Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfari Íslands í hestaíþróttum hefur kynnt landsliðshóp sinn fyrir komandi tímabil. Þetta kemur fram á vef LH en í síðustu viku kynnti Hekla Katharina Kristsindóttir landsliðshóp u-21 árs landsliðs Íslands.
Á vef LH segir:
Landsliðsþjálfari A Landsliðsins, Sigurbjörn Bárðarson hefur lokið við að velja knapa í landsliðshóp. Framundan er stórt verkefni, HM í Sviss í ágúst. Í hópnum eru 5 ríkjandi heimsmeistarar en alls telur hópurinn 20 knapa sem hafa bæði árangurinn og hest sem stendur til boða í verkefnið. Guðmunda Ellen er eini nýji knapinn í hópnum en hún er ríkjandi Íslandsmeistari í fjórgangi. Þann 30. nóvember næstkomandi munu knapar úr landsliðshópnum vera með kennslusýningar og verður ákaflega spennandi að sjá hópinn koma saman og setja tóninni fyrir komandi tímabil
Ríkjandi heimsmeistarar:
Benedikt Ólafsson Hestamannafélagið Hörður
Benedikt varð tvöfaldur heimsmeistari á HM í Hollandi 2023 í gæðingaskeiði og samanlögðum fimmgangsgreinum ungmenna.
Frammistaða hans í gæðingaskeiði mótsins var eftirminnileg og hefði dugað honum til silfurverðlauna í fullorðinsflokki mótsins.
Elvar Þormarsson, Hestamannafélagið Geysir
Elvar er tvöfaldur heimsmeistari frá því í Hollandi 2023 á Fjalladísi frá Fornusöndum. Þau sigruðu gæðingaskeið og 250 m skeið.
Glódís Rún Sigurðardóttir, Hestamannafélagið Sleipnir
Glódís er ríkjandi heimsmeistari í fimmgangi Ungmenna á Sölku frá Efri-Brú eftir frábæra frammistöðu í Hollandi.
Jóhanna Margrét Snorradóttir, Hestamannafélagið Máni
Jóhanna Margrét og Bárður frá Melabergi voru einar skærustu stjörnur síðustu ára í Íslandshestaheiminum og eru ríkjandi heimsmeistarar í tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum.
Sara Sigurbjörnsdóttir, Hestamannafélagið Fákur
Sara rak smiðshöggið á farsælan feril síns og Flóka frá Oddhóli með því að verða heimsmeistari í fimmgangi á HM í Hollandi 2023.
Aðrir landsliðsknapar:
Ásmundur Ernir Snorrason, Hestamannafélagið Geysir
Ásmundur hefur átt frábæru gengi að fagna á liðnu ári í slaktaumatölti á henni Hlökk frá Strandarhöfði og fimmgangsgreinum á Aski frá Holtsmúla.
Daníel Gunnarsson, Hestamannafélagið Skagfirðingur
Danni hefur á undanförnum árum sýnt og sannað að hann er orðinn sérfræðingur og listaknapi í skeiðgreinum. Hann átti frábært ár á skeiðbrautinni með Strák frá Miðsitju og Kló frá Einhamri.
Guðmunda Ellen Sigurðardóttir, Hestamannafélagið Sleipnir
Guðmunda Ellen skaust á árinu upp á stjörnuhiminninn með frábærum sýningum í fjórgangi á Flaum frá Fákshólum og er Íslandsmeistari í fjórgangi 2024.
Gústaf Ásgeir Hinriksson, Hestamannafélagið Fákur
Gústaf hefur á árinu verið sterkur í tölti og fjórgangi á Össu frá Miðhúsum og í skeiðgreinum á Sjóði frá Þóreyjarnúpi.
Hans Þór Hilmarsson
Hans og Ölur frá Laugavöllum eru Íslandsmeistarar í fimmgangi á árinu 2024, og jafnframt hefur Hansi átt góðu gengi að fagna í skeiðgreinum.
Helga Una Björnsdóttir, Hestamannafélagið Þytur
Helga Una er með sterkan og breiðan árangur í tölti og slaktaumatölti á árinu.
Hinrik Bragason, Hestamannafélagið Fákur
Hinrik og Trú frá Árbakka eru afa sigursælt par í gæðingaskeiði og sigruðu greinina meðal annars á Landsmóti 2024.
Jakob Svavar Sigurðsson, Hestamannafélagið Dreyri
Jakob Svavar átti frábært ár á íþróttabrautinni á árinu 2024. Hann er íþróttaknapi ársins og sigraði töltið á Landsmóti 2024 með glæsibrag á Skarpi frá Kýrholti.
Páll Bragi Hólmarsson, Hestamannafélagið Jökull
Páll Bragi og Vísir frá Kagaðarhóli eru orðnir eitt af sterkari pörum landsins í tölti. Þeir sigruðu T1 á Reykjavíkurmeistaramóti Fáks 2024 og voru í úrslitum stærstu móta ársins í greininni.
Ragnhildur Haraldsdóttir, Hestamannafélagið Sleipnir
Ragga og Úlfur frá Mosfellsbæ eru eitt af sterkari pörum landsins í tölti og fjórgangi.
Sigursteinn Sumarliðason, Hestamannafélagið Sleipnir.
Sigursteinn og Krókus frá Dalbæ eru Íslandsmeistarar í 250 m skeiði og eiga besta tíma ársins 2024 í greininni.
Teitur Árnason, Hestamannafélagið Fákur
Teitur er sterkur knapi í öllum greinum með breiðan árangur síðastliðin ár með hóp sterkra hesta.
Þorgeir Ólafsson, Hestamannafélagið Borgfirðingur
Þorgeir hefur á árinu 2024 átt góðu gengi að fagna í ýmsum greinum. Hann var í a-úrslitum í fjórgangi og fimmgangi á Íslandsmóti 2024 ásamt því að vera sterkur í skeiðgreinum á árinu.
Þórarinn Ragnarsson, Hestamannafélagið Jökull
Þórarinn átti frábært ár í fimmgangi með Herkúles frá Vesturkoti og vann til silfurverðlauna á Landsmóti og Íslandsmóti í greininni ásamt því að vera sterkur í skeiðgreinum á árinu.
Viðar Ingólfsson, Hestamannafélagið Fákur
Viðar er atkvæðamikill knapi og hefur átt góðu gengi að fagna með fjölda hesta á árinu 2024. Hæst ber að nefna sterkan samalagðan árangur á Vigra frá Bæ sem hefur verið sterkur í fimmgangi en var einnig í úrslitum á Íslandsmóti í tölti, ásamt því að vera atkvæðamikill í T2 á Þormari frá Neðri-Hrepp.