300 þúsund undirskriftir afhentar ráðherra vegna blóðmerahalds

  • 22. október 2025
  • Fréttir

Þau samtök sem stóðu fyrir undirskriftarsöfnunum ásamt stuðningi Samtaka um dýravelferð voru Animal Welfare Foundation og Tierschutzbund Zürich, Anima, Ekō, Care2 og Dýraverndarsamband Íslands. Ljósmynd: Lisa Nowinski/Facebook síða Dýraverndarsamband Íslands

Um 300 þúsund undirskriftir voru afhentar atvinnuvegaráðherra, Hönnu Kristínu Friðriksson, nú á dögunum þar sem skorað er á stjórnvöld að banna blóðmerahald á Íslandi. Að baki undirskriftasöfnuninni standa fimm alþjóðleg dýraverndarsamtök og tvö íslensk, frá þessu segir á vefsíðu RÚV.

Samtökin benda á að Ísland sé eina landið í Evrópu þar sem blóðtaka úr fylfullum hryssum er stunduð og telja að fyrirkomulagið valdi bæði dýravelferðarvanda og orðsporshnekki. Um fjögur þúsund blóðmerar eru nú á um 90 bæjum landsins.

„Þetta er langt frá því að uppfylla evrópska staðla og við teljum að hætta þurfi blóðmerahaldi í eitt skipti fyrir öll,“ sagði Sabrina Gurtner hjá dýraverndarsamtökunum AW í samtali við RÚV. Þá bendir Rósa Líf Darradóttir, læknir og dýraverndarsinni, á að allt að 40 lítrar blóðs séu teknir úr hverri hryssu á einu tímabili.

Starfsleyfi Ísteka, fyrirtækisins sem vinnur blóðið og selur það til lyfjaframleiðslu, rann út 6. október. Fyrirtækið stendur nú í málaferlum sem hafa áhrif á framhald starfseminnar og snúast um að geta sótt um starfsleyfi á grundvelli landbúnaðarframleiðslu en ekki í vísindaskyni.

Um daginn birtist frétt hér á vef Eiðfaxa sem byggði á opnu bréfi sem stjórn Alþjóðsamtaka íslenska hestsins (FEIF) birti þar sem þau fordæmdu blóðmerahald á Íslandi með skýrum og afgerandi hætti.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar