4,9 milljón áhorf á áhrifavaldaverkefni Horses of Iceland
Áhrifavaldaverkefni Horses of Iceland, sem fram fór í október, hefur nú þegar skilað glæsilegum árangri: alls hafa verið birt 40 myndbönd á þremur miðlum sem hafa fengið 4.910.000 áhorf – og þeim fjölgar enn.
Verkefnið, sem var það fyrsta sinnar tegundar á vegum Horses of Iceland, fól í sér að fjórar erlendar reiðkonur og áhrifavaldar komu til Íslands til að kynnast íslenska hestinum, menningu hans og fólkinu á bakvið hann. Þær dvöldu á hrossaræktarbúunum Hjarðartúni, Hvoli og Sunnuhvoli og fengu kennslu frá reyndum þjálfurum sem nutu mikilla vinsælda meðal þátttakenda.
„Þær voru allar svo opnar, forvitnar og einlægar í nálgun sinni – og þjálfararnir okkar stóðu sig frábærlega í að miðla bæði þekkingu og ástríðu fyrir íslenska hestinum,“ segir Berglind Margo Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri Horses of Iceland.
„Þegar kom að lokum ferðarinnar voru þær allar daprar að þurfa að kveðja. Kristin sagði meira að segja að þetta væri ferð sem hún myndi segja barnabörnunum sínum frá, og allar sögðu að það væri ekki útilokað að íslenski hesturinn ætti eftir að verða hluti af framtíð þeirra.“
Þegar Berglind er spurð hvernig hugmyndin hafi kviknað brosir hún og svarar:
„Ég fékk hugmyndina í sturtunni eitt kvöldið! Ég var að velta fyrir mér hvernig væri hægt að hámarka stafræna og samfélagsmiðlaumfjöllun til að kynna íslenska hestinn. Við gerum nú þegar mikið en mig langaði að hugsa lengra og fara út fyrir boxið. Þá hugsaði ég: hvað er betra en að nýta fólk sem þegar hefur sitt eigið platform og áhorfendur sem eru akkúrat okkar markhópur?“
Að hennar mati er einn lykill að velgengni verkefnisins sú staðreynd að allir sem að því koma hér heima trúa sannarlega á vöruna: íslenski hesturinn.
„Ég vissi að hestarnir og fólkið sem ég hafði í huga myndu ekki bregðast. Ég er svo sannfærð um gæði íslenska hestsins – og fólksins sem vinnur með honum – að það var aldrei spurning. Íslenski hesturinn er einstakur, bæði í skapi og eiginleikum, og það sést í öllu sem við gerum. Þegar allir trúa á það sem þeir eru að kynna, þá verður útkoman góð.“
Áhrifavaldarnir komu frá Þýskalandi og Svíþjóð og sögðu reynsluna hafa breytt sýn þeirra á íslenska hestinn.
„Þetta verkefni hefur ekki bara sýnt fram á fjölhæfni hestsins,“ segir Berglind, „heldur líka áhrifin sem felast í því að segja söguna í gegnum ný augu.“
Horses of Iceland vill þakka öllum sem lögðu hönd á plóg – þjálfurum, eigendum, ræktendum, öðrum samstarfsaðilum og einfaldlega öllum þeim sem tóku á móti hópnum með hlýju og jákvæðni og gerðu þessa ferð að raunveruleika.
Minningarorð um Ragnar Tómasson
Bein útsending frá Hrossaræktarráðstefnunni
Drög að dagskrá LM 2026