Enn ein rós í hnappagat yngsta félags landsins

  • 22. nóvember 2023
  • Fréttir

Bragi Gunnarsson formaður Jökuls með æskulýðsbikarinn við hlið hans stendur formaður æslulýðsnefndar LH Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir.

Hestamannafélagið Jökull hlaut æskulýðsbikar LH

Hestamannafélagið Jökull var stofnað 1. júlí árið 2021 þegar hestamannafélögin Logi, Trausti og Smári sameinuðust. Síðan að þetta var gert hefur starfsemi félagsins blómstrað og vakið athygli annarra hestamannafélaga. Félagar í Jökli eru tæplega 700 talsins og eru þeir því fleiri en í t.d. nágrannafélaginu Sleipni sem hefur þótt frekar fjölmennt félag á landsvísu.

Enn ein rós bættist í hnappagat þessa yngsta hestamannafélags landsins um helgina þegar því var úthlutað æskulýðsbikar LH. En í reglugerð um æskulýðsbikar LH segir  „Æskulýðsnefnd LH veitir á hverju ári Æskulýðsbikar LH, því hestamannafélagi sem þykir hafa skarað framúr með sínu starfi að æskulýðsmálum. Valið byggir á ársskýrslum æskulýðsnefnda félaganna, sem sendar eru inn til æskulýðsnefndar LH á haustin og hefur nefndin það verkefni að velja bestu skýrsluna.“

Í yfirlýsingu frá stjórn Jökuls segir:

„Æskulýðsnefnd á heiður skilið fyrir frábært starf á liðnu starfsári og veitir þessi viðurkenning starfinu öllu byr undir báða vængi.
Það er of margt sem hefur verið gert undanfarið árið svo hægt sé að nefna allt en við veitingu verðlaunanna var þó minnst á nokkur atriði sem þóttu eftirtektarverð. Knapamerkin sem Oddrún Ýr Sigurðardóttir hefur haldið algjörlega utanum, öll útinámskeiðin og reiðtúrarnir. Og svo var sérstaklega tekið fram að starfið sé almennt fjölbreytt og oft “út fyrir boxið”. Kristín Sigríður Magnúsdóttir er formaður æskulýðsnefndar og á mjög stóran þátt í þessu en það eru miklar dugnaðar konur með henni í nefndinni. Það eru þær Arna Þöll Sigmundsdóttir, Bára Másdóttir, Elin Moqvist, Guðrún Erna Þórisdóttir, Guðbjörg Þóra Jónsdóttir og Kristín Eva Einarsdóttir. Unnur Lísa Schram er nýgengin útúr nefndinni eftir margra ára setu. Viljum við í stjórninni vekja athygli á þessu eftirtektaverða starfi hjá Æskulýðsnefndinni okkar og þakka þeim um leið fyrir frábært starf á liðnu ári og árum.“

Ungir Jökulsfélagar kátir með æskulýðsbikarinn

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar