Aukið samstarf milli LH og Hólaskóla

  • 23. nóvember 2023
  • Fréttir
Fyrr í vikunni voru lögð drög að samkomulagi milli Landssambands hestamannafélaga og Háskólans á Hólum

Fyrr í vikunni voru lögð drög að samkomulagi milli Landssambands hestamannafélaga og Háskólans á Hólum um aukið samstarf sem miðar að auknum stuðningi við menntun afreksknapa landsliðanna og hæfileikamótunarhóp LH. Stefnt er að því að samningurinn verði kláraður, undirritaður og kynntur á menntadegi landsliðsins sem haldinn verður 16. desember næstkomandi.

„Þetta var frábær fundur sem verður án efa upphafið að stórauknu samstarfi LH og Hólaskóla. Það er verðmætt fyrir okkur að ná að auka samstarfið enn frekar og teljum að svona samstarf geti nýst báðum aðilum mjög vel. Við hjá LH erum stöðugt að setja markmiðin hærra og viljum ávallt vera í fararbroddi þegar kemur að menntun okkar afreksfólks. Aukið samstarf við Hólaskóla er stór og mikilvægur þáttur í því að okkar mati. Þá er það von okkar og trú að nemendur, kennarar og skólinn sjálfur muni einnig njóta góðs af samstarfinu og vera virkari þátttakandi í metnaðarfullu afreksstarfi LH“ segir Guðni Halldórsson formaður LH.

Guðni segir jafnframt að skólinn muni bjóða upp á fræðsludaga fyrir norðan með alþjóðlegum kennurum og fyrirlesurum og mun LH á móti bjóða kennurum og eftir atvikum nemendum Hólaskóla aðgang að viðburðum, kennslu og fyrirlestrum á vegum landsliðanna.

Í tilkynningu frá Landssambandinu tekur Hólmfríður Sveinsdóttir rektor Háskólans á Hólum undir orð Guðna og segir: ,,Háskólinn á Hólum hefur í gegnum tíðina átt í afar farsælu samstarfi við LH og landslið Íslands í hestaíþróttum og hafa margir af okkar helstu afreksknöpum og þjálfurum menntað sig í reiðmennsku og reiðkennslu við Háskólann á Hólum. Háskólinn á Hólum hefur verið brautryðjandi í námi og rannsóknum á sviði reiðmennsku á íslenska hestinum og hefur það að markmiði að efla námið og rannsóknirnar enn frekar. Markvissara og nánara samstarf við LH og íslenska landsliðið er lykilþáttur í þeirri vegferð skólans.“

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar