Er Helgstrand síðasti níðingurinn?

  • 4. desember 2023
  • Aðsend grein Fréttir

Andreas Helgstrand og Jovian at Hagen. © Rüchel 7 Mhisen

Síðustu misseri hafa erlendir fjölmiðlar logað vegna danskrar rannsóknarblaðamennsku.

Lítið hefur verið skrifað um þættina á íslenskum miðlum, enda hafa þættirnir ekki verið birtir á veitu sem er opin íslendingum. Hins vegar eru leiðir til að nálgast þættina og margir farnir að koma höndum yfir þá.

Í þáttunum sést myndefni sem rannsóknarblaðamaður aflar í dulargervi hestahirðis. Hún starfaði í dönskum höfuðstöðvum Helgstrand Dressage í nokkra mánuði og aflaði myndefnis sem bæði sýnir fjölda brota á dönskum dýravelferðarlögum sem og samtöl við aðra hestahirða sem lýsa þeim hremmingum sem hrossin verða fyrir. Þar fæst einnig staðfesting á að vinnubrögðin sem um ræðir hafa lengi verið við lýði, þöggunin mikil og fólk algjörlega samdauna.

Í stuttu máli kemur fram í þáttunum tveimur hvers kyns dýraníð fer fram á búgarðinum; hestarnir eru hýddir með písk, þeir eru götóttir á síðunum eftir spora, blóðugir og bólgnar í munni, reiðmennskan er gróf og ítrekuð, notast er við rennitauma í miklu magni, hestar eru allt of mikið innbundnir í hringtaumsvinnu og í reið, að því marki sem kallast rollkur, heilu þjálfunarstundirnar. Allt þetta sést oft yfir tímabilið. Þegar von er á viðskiptavinum í heimsókn eru hestarnir settir í ábreiður ef á þeim sjást pískför, skósverta er sett í sárin eftir sporana og rennitaumarnir eru faldir. Í lok þáttana gengur hestahirðirinn í dulargervinu á höfuðpaurinn Andreas Helgstrand og spyr hvort hann sé meðvitaður um það sem gangi á.

Í millitíð þess að efnið var tekið upp og þættirnir síðan birtir reyndi Andreas að stöðva birtingu efnisins. Danskir dómstólar ákváðu að leyfa TV2 að birta myndefnið, enda birta þeir efni sem þykir mikilvægt að almenningur fái að sjá. Áður en þættirnir fóru í loftið gekk á ýmsu, Andreas var dæmdur úr leik í annað sinn á tímabilinu fyrir blóð í munni og faðir hans, Ulf Helgstrand, sagði sig úr stjórn Danska hesta landssambandsins.

Margir fordæma vinnubrögð Helgstrand í greinaskrifum sínum og knapar sem áður unnu fyrir Helgstrand keppast við að hreinsa hendur sínar gagnvart þeim tengslum. Sannleikurinn er hins vegar sá að Andreas Helgstrand er ekkert einsdæmi og sennilega alls ekki sá versti né síðasti. Margoft hefur sést til knapa sem keppa á sama vettvangi beita aðferðum sem samræmast ekki almennum velferðargildum. Umræðan litast þó fyrst og síðast af fordæmingu í garð þess sem sést í þáttunum og þeirra sem þar eiga í hlut. Margir vona þó að umræðan leiði af sér stærri breytingar en þær einar að Andreas Helgstrand sjáist ekki aftur á keppnisvellinum.

Það er nefnilega svo að allt á þetta sér orsök og afleiðingu. Einhver er hvatinn að baki því að fjölþjóðleg hrossaþjálfunarsamstæða sjái fjárhagslegan hag í því að nota þjálfunaraðferðir sem stangast á við lög og gæta þöggunar yfir því. Hvatinn á sér sama uppruna og peningarnir. Þeir sem kaupa vöruna sem Helgstrand Dressage selur eru að leita að ungum og efnilegum hrossum sem sýna áhugaverða eiginleika en eiga langan feril framundan. Það felur í sér bæði von og ákveðið öryggi, enda er hesturinn nú þegar farinn að sýna eitthvað sem er umfram það sem meðal hestur býður upp á, hvort sem það er eðlislægt eða smíðað. Slíkt hross er alltaf verðmætara, sama hvaða tegund af keppni um ræðir.

Hraðinn er gróðinn, því hver dagur í þjálfun er dýr. Virðið felst í hreyfigetu (sem oftast nær er langt frá því að vera hið eðlislæga form) en ekki menntun. Eitt besta dæmið um þetta í dressage er fótaburður og samankreistur rammi, sem hefur lítið að gera með þær æfingar sem framkvæmdar eru í keppni og þá menntun sem þurfti til svo hægt væri að keppa í hinni upprunalegu dressage keppni forðum daga. Dómarar virðast þó láta hreyfingar tæla sig ofar í einkunnaskalann fremur en vel framkvæmdar æfingar og því auðséð hvað kaupendur setja á forgangslistann þegar leitað er að unghrossi sem á að skara frammúr.

Ég held að það mótmæli því engin atvinnuknapi þegar ég segi, að margir myndu óska þess að fá meiri tíma með þeim hestum sem þeim er treyst fyrir. Að virði menntunar hrossa væri meira virðisaukandi en hreyfingar. Líkt og þær geta verið mörgum hrossum eðlislægar, þá er einnig hægt að smíða hreyfingar en slík vinnubrögð eru sjaldan sanngjörn, þá sérstaklega á meðan hrossið er ungt. Ef dómskerfið og keppni mæti menntun og líkamlegan styrk öðru framar, myndu peningarnir rata frekar í þá fjárfestingu sem góð þjálfun er. En slíkt keppnisform virðist varla til staðar í Dressage í dag, og ekki er íslandshestakeppnin betri hvað þetta varðar.

Kanski þýðir því lítið að benda á atvinnuknapa sem meiða hesta þegar hugsað er um hið stóra samhengi þegar öllu er á botnin hvolft. Því þó milljónamæringnum Andreas Helgstrand verði seint vorkennt, þá er hann aðeins eitt leikpeð á stóru taflborði, þar sem leikurinn snýst um hreyfingar sem mega bæði vera eðlislægar eða smíðaðar, svo lengi sem þær koma hratt. Fyrir það fást háar einkunnir og háar upphæðir.

Ef við viljum ekki að Helgstrand Dressage málið endurtaki sig, þá er ekki nóg að afhöfða Andreas. Fyrst og síðast þarf að breyta gildunum.

 

Höfundur: Thelma Harðardóttir

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar