Elsa hætt hjá RML
Elsa Albertsdóttir, ábyrgðarmaður hrossaræktar hjá Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins hefur sagt starfi sínu lausu en þetta staðfestir Karvel L. Karvelsson framkvæmdastjóri RML í samtali við blaðamann Eiðfaxa. Elsa tók við stöðu ábyrgðarmanns í hrossarækt haustið 2020.
„Við munum fara yfir starfið en þetta er margbrotið starf sem lýtur að innlendum og erlendum samskiptum. Við ætlum að taka smá tíma til að skoða það og hvort að við dreifum einstaka verkefnum innan starfshópsins og/eða vinnum það meira í teymum. Síðan athugum við með að fá nýja manneskju inn. Fyrsta stigið er í rauninni bara að greina starfið og fara yfir hvort það sé eitthvað annað eða öðruvísi sem við getum gert. Með þessu er ég ekki að segja að þeir sem hafi verið í þessu starfi hafi verið að sinna því illa, við erum einfaldlega að nota tækifærið, til að mynda, til að nota þau vinnugögn sem hafa komið fram í þjónustukönnun hjá okkur og SVÓT greiningu Fagráðs til þess að skoða hvað við getum gert með skilvirkari hætti,“ sagði Karvel varðandi framhaldið.
Elsa Albertsdóttir kýs að tjá sig ekki um málið að svo stöddu.