„Ótækt að breyta reglu af því bara“

  • 25. janúar 2024
  • Fréttir

Halldór Gunnar Victorsson er formaður hestaíþróttadómarafélags Íslands og hefur starfað sem dómari í 30 ár.

Tillaga liggur fyrir á FEIF þinginu að láta allar einkunnir dómara gilda í íþróttakeppni

Fulltrúaþing FEIF fer fram fyrstu helgina í febrúar í Lúxemborg. Á þinginu eru teknar ákvarðanir er tengjast Íslandshestamennskunni og liggja ýmsar tillögur fyrir í ár.

Ein af þeim tillögum er sú að í íþróttakeppni muni einkunnir allra dómara gilda. Það er töluverð breyting frá því sem verið hefur.

Reglan sem er viðhöfð nú er sú að á þeim mótum þar sem þrír dómarar dæma gilda allar einkunnir en þegar um mót þar sem fimm dómarar sinna dómgæslu er að ræða, falla einkunnir hæsta og lægsta dómara út og eingöngu meðaltal hinna þriggja er notað til að finna út meðaleinkunn.

Blaðamaður Eiðfaxa heyrði í Halldóri Gunnari Victorssyni formanni hestaíþróttadómarafélags Íslands sem taldi of litla umræðu hafa verið um málið og mörgum spurningum ósvarað.

„Ég heyrði af þessu fyrir einhverjum vikum síðan og í raun og veru ótrúlega stutt síðan ég heyrði af þessu. Þetta mál hefur komið oft upp áður, menn hafa rætt þetta en alltaf verið slegið út af borðinu og haldið áfram. Umræðan hefur verið þannig að mönnum finnst eðlilegra að hæsta og lægsta einkunnin detti út, stærðfræðilega séð, þó ég taki það fram að ég er enginn stærðfræðingur. Menn telja niðurstöðuna verða réttasta og miðlægnin verði minni.“

Umræðan um miðlægni í dómum hefur verið til staðar í mörg ár. Telur Halldór þessa breytingu geta orðið til þess að miðlægnin verði enn meiri.

„Hvaða áhrif þetta hefur á dómara er erfitt að átta sig á. Ég er svolítið hræddur við að miðlægni verði enn meiri í dómstörfum. Dómarar þori síður að taka afdrifaríkar ákvarðanir og dæma eftir sinni sannfæringu. Dómarinn þori ekki að standa í lappirnar og líka það að það verði einfaldlega allt vitlaust ef menn fara sínar leiðir í dómsstörfum. Það er eflaust einhverjir jákvæðir punktar við þetta líka t.d. að þetta muni gera dómara sterkari en ég hef samt efasemdir um þetta.“

Aðalatriðið segir Halldór þó vera að alltof lítið sé búið að ræða um þetta og of mörgum spurningum sé ósvarað.

„Ég velti fyrir mér hvers vegna er ekki búið að ræða þetta meira á Íslandi? Hvers vegna er ekki hægt að fá að vita hvaðan þessi tillaga kemur? Hver er ástæðan fyrir því að verið sé að breyta þessu? Enginn sem ég hef talað við hefur getað sagt mér það nákvæmlega. Þetta er stór ákvörðun og ég sakna þess að fá engin svör og enga umræðu. Mér finnst ótækt að breyta reglu af því bara. Ég vil fá haldbær rök fyrir því út af hverju.“

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar