Lið Hringdu í 1. deildinni

Undirbúningur fyrir 1. deildina í hestaíþróttum er hafinn en fyrsta mótið verður 23. febrúar og þá verður keppt í fjórgangi. Deildin hefur hafið liðakynningu og sjötta liðið sem deildin kynnir til leiks er lið Hringdu
Hér fyrir neðan er liðakynningin á liði Hringdu
Játvarður Jökull Ingvarsson
Játvarður stundar hestamennsku að kappi ásamt fjölskyldu sinni í Herði í Mosfellsbæ. Hann stofnaði fyrirtækið Hringdu á sínum tíma og starfar þar í dag sem framkvæmdastjóri. Játvarður hefur keppt þó nokkuð í gegnum tíðina en hefur ekki verið sýnilegur síðastliðin ár en hyggst nú gera breytingar á því.
Ylfa Guðrún Svafarsdóttir
Ylfa er menntaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og rekur tamningastöð í hestamannafélaginu Sörla í Hafnarfirði. Ylfa hefur verið áberandi á keppnisvellinum frá unga aldri og var meðlimur U21 landsliðsins á árunum 2016-2021. Hún er þrefaldur Íslandsmeistari í T2 og F1 og á marga Reykjavíkurmeistaratitla á bakinu ásamt því að hljóta silfur á Norðurlandamóti 2016 og vera í úrslitum 2018.
Reynir Örn Pálmason
Reynir hefur verið viðloðin keppnisvellinum til margra ára og hefur unnið til margra verðlauna í ýmsum greinum. Reynir er meðal annars blikksmiður að mennt ásamt því að hafa gengið í Hólaskóla. Í dag rekur hann hrossaræktarbúið Margrétarhof í Ásahrepp með miklum sóma.
Kári Steinsson
Kári stundar hestamennsku í hestamannafélaginu Fáki í Reykjavík. Hann hefur náð góðum árangri í keppni og meðal annars orðið Íslandsmeistari, sigrað Landsmót og Fjórðungsmót. Árið 2015 var hann útnefndur Gæðingaknapi ársins. Kári starfar í dag í hlutastarfi hjá Icelandair ásamt því að temja og þjálfa hross fyrir aðra en mest þó úr ræktun fjölskyldunnar, sem ber heitið Lerkiholt.
Vigdís Matthíasdóttir
Vigdís Matthíasdóttir (Vigga Matt) er búin að stunda hestamennsku frá barnsaldri með fjölskyldu sinni í Hestamannafélaginu Fáki. Útskrifaðist af Reiðmennskubraut frá Háskólanum á Hólum í Hjaltadal árið 2013. Bjó lengi vel í Svíðþjóð og hefur verið iðin við kennslu jafnt þar og hér heima. Hún hefur náð góðum árangri í keppni og sigraði meðal annars 100m skeið á Landsmóti Hestamanna árið 2014. Vigdís starfar í dag við tamningar og þjálfun á félagssvæði Fáks.