Dæmt í máli Jóhanns Rúnars gegn LH
Niðurstaða dómsins er sú að krafa Jóhanns Rúnars, að felld verði úr gildi ákvörðun stjórnar LH og landsliðsnefndar að víkja honum úr landsliðshópi, er hafnað. Þá er kröfum um greiðslu málskostnaðar einnig hafnað. Dóminn í heild sinni má finna á vef LH.
Upphaf málsins má rekja til ársins 2021 þegar Jóhanni er vikið úr landsliði Íslands í hestaíþróttum. Samkvæmt fréttatilkynningu LH frá því 31.október 2021 var ákvörðunin tekin vegna kynferðisafbrots sem stjórn og landsliðsnefnd hafi ekki verið kunnugt um. Er þar vísað til dóms sem Jóhann hlaut árið 1994.
Byggir Jóhann kröfu sína á þeim forsendum að samkvæmt reglum FEIF, sbr. gr S7.1 eigi hann sem ríkjandi heimsmeistari rétt til að taka þátt í næsta heimsmeistaramóti.
Ákveði um trúnaðarmenn gilda ekki um knapa
Ástæðu þess að Jóhann var ekki í þeim hópi byggir LH ákvörðun sína á 5.gr a) í lögum ÍSÍ og 16.gr íþróttalaga nr. 64/1998 þar sem fram kemur að óheimilt sé að ráða til starfa innan íþróttahreyfingarinnar einstaklinga sem vitað er að hafi hlotið refsidóma vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig á ákvæði A1.6 í almennum reglum LH um keppni, sbr ákvæði G1.6 í reglum FEIF, þar kveður á um að sérhver fulltrúi sem komi fram sem fulltrúi FEIF á opinberum vettvangi skuli sæta varanlegri brottvikningu hljóti hann dóm vegna ofbeldis- eða kynferðisbrots.
Í dómsorðum kemur fram að svipting réttar til að gegna trúnaðarstörfum innan íþróttahreyfingarinnar tímabundið eða ævilangt hefur ekki í för með sér missi almennra félagsréttinda eða keppnisréttar. sbr. lög ÍSÍ gr 38.2 lið c) ii).
Samkvæmt þessu liggur fyrir að ákvörðun LH um að víkja Jóhanni úr landsliðshópnum byggir ekki á ofangreindum lagaheimildum. Það er álit dómsins að ákvæði sem gilda um trúnaðarmenn gildi ekki um knapa eða aðra íþróttaiðkendur.
Hótanir og óforsvaranleg háttsemi
Í málatilbúnaði sínum vísar LH til þess að áður en ákvörðun um að velja Jóhann ekki í landsliðshópinn og eftir að að hún var tekin hafi aðilar sem starfa innan LH mátt sæta hótunum, áreiti og annari óforsvaranlegri háttsemi af hendi Jóhanns.
Það er álit dómsins að ofangreind háttsemi Jóhanns sé þess eðlis að hún útiloki hann frá þátttöku í keppnum, svk. gr. 38.2 lið c)i) í lögum ÍSÍ, það leiðir til þess að hafna ber kröfu Jóhanns í málinu.
Þá kemur fram í dómnum að LH skuli kveða um tímalengd óhlutgengis Jóhanns nú þegar, enda verður að telja að Jóhann eigi skýlausan rétt á að upplýst verði um tímalengd óhlutgengis, sem er kærlanleg til Dómstóla ÍSÍ, skv 24. gr. Laga ÍSÍ.