Félag Tamningamanna Trausti Þór gullmerkishafi Félags Tamningamanna

  • 19. febrúar 2024
  • Fréttir

Ljósmynd: Gígja Dögg Einarsdóttir

50 ára afmæli Félags Tamningamanna var haldið hátíðlegt laugardaginn 17.febrúar síðastliðinn í reiðhöllinni í Fáki.

Félagið bauð hestamönnum öllum til veislunnar sem var afar vegleg, gefið var afmælisrit félagsins, boðið var upp á afmælisköku og söngatriði og augljóst að gleðin var við völd. Í anddyri reiðhallarinnar tók á móti gestum málverkasýning Péturs Behrens, sem er einn af stofnendum félagsins, og það gaf sýningunni enn hátíðlegri blæ. Sýningaratriðin voru á heimsmælikvarða þar sem fram komu tamningameistarar félagsins og afreksknapar. Fyrrum formönnum félagsins var þakkað fyrir störf sín í þágu félagsins sem og stofnendum félagsins fyrir hugsjón sína og eldmóð að hafa komið félaginu á laggirnar á sínum tíma.

Æðsta viðurkenning félagsins, Gullmerki Félags Tamningamanna, var veitt Trausta Þór Guðmundssyni fyrir óeigingjarnt starf sitt fyrir íslenska hestinn, hestamenn alla og Félag Tamningamanna. Við það tilefni var stiklað á stóru um hans feril sem hestamanns. Brot af því má lesa hér fyrir neðan.

Trausti Þór Guðmundsson hefur frá fyrstu tíð helgað sig hestum og allar götur síðan. Hann var einn af þessum krökkum sem segja má að hafi verið fæddur inn í vitlausa fjölskyldu því hvorki foreldrar hans né önnur skyldmenni tengdust með nokkrum hætti hestum eða hestamennsku. Hann var það sem í dag er stundum kallað „hestamennskulegir munaðarleysingjar“. Snemma kom í ljós að pilturinn hafði gott lag á hestum og fljótlega fór hann að hleypa hestum á kappreiðum og þjálfaði hesta fyrir aðra. Árið 1975 var Trausti valinn í landslið Íslands sem keppti á Evrópumótinu í Austurríki og þar með var piltur kominn almennilega á blað og segja má að teningnum sé þarna kastað. Á því herrans ári 1990 á Vindheimamelum vann Trausti það einstæða afrek að vera með tvo hesta í úrslitum A- flokks, sem hann svo sigraði á Muna frá Ketilsstöðum. Þetta er óefað toppurinn á ferli Trausta og árangur sem verður líkast til seint jafnaður eða bættur. Þá eiga þeir Trausti og Gýmir met, 9,39 í einkunn í forkeppni A-flokks gæðinga sett á gæðingamóti Fáks 1991 sem enn stendur. Trausti hefur verið vel virkur í félagsmálum hestamanna og var m.a. átta ár formaður Félags tamningamanna en á hans vakt var undirritaður 1995 mikilvægur samningur milli félagsins og Hólaskóla um menntamál tamningamanna og reiðkennara. Hefur þessi málaflokkur alla tíð verið honum hugstæður og líklegast engin tilviljun að gengið yrði frá þessu mikilvæga skrefi í hans formannstíð. Að koma fræðslu- og menntaþætti félagsins í öruggt skjól. Trausti er og hefur verið alla tíð hestamaður af lífi og sál og þar hefur Félag tamningamanna ávallt skipað stóran sess í huga hans.

 

Innilega til hamingju Trausti Þór með verðskuldað Gullmerki Félags Tamningamanna.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar