Kynbótasýningar Ferli áminninga á kynbótasýningum

  • 17. maí 2024
  • Aðsend grein
Aðsend grein eftir Þorvald Kristjánsson

Á aðalfundi FEIF sem haldin var í febrúar á þessu ári var samþykkt ný regla í kynbótasýningum sem vert er að vekja athygli á. Þessi regla snýr að endurteknum áminningum og er sem hér segir:

 Viðurlög við endurteknum áminningum

Sýnandi, umsjónaraðili hests eða hesteigandi sem hefur hlotið þrjár áminningar eða tvær opinberar áminningar innan fjögurra mánaða tímabils er sjálfkrafa meinuð þátttaka í kynbótasýningum næstu fjóra mánuði frá skráningu síðastu áminningar eða opinberrar áminningar.  

Til upprifjunar að þá er gerður greinarmunur á áminningum og opinberum áminningum. Svo dæmi sé tekið að þá fá knapar áminningu og reiðdómur fellur niður ef þeir koma ekki með hest til áverkaskoðunar eftir sýningu. Hérna er ekki um opinbera áminningu að ræða. Opinberar áminningar eru lesnar í hátalarakerfii og varða grófa reiðmennsku, ósæmilega hegðun í garð starfsfólks kynbótasýninga eða endurtekin brot. Í reglum um kynbótasýningar er kveðið á um eftirfarandi:

Viðurlög við ólöglegum búnaði eða járningum:

Fyrsta brot á viðkomandi sýningu: Áminning og dómur á viðkomandi hrossi ógiltur.
Annað brot á viðkomandi sýningu: Opinber áminning og dómur á  viðkomandi hrossi ógiltur.

Viðurlög við grófri reiðmennsku:

Fyrsta brot á viðkomandi sýningu: Opinber áminning.
Annað brot á viðkomandi sýningu: Brottvísun knapa af viðkomandi sýningu og dómur á viðkomandi hrossi ógiltur.

Áminningar og opinberar áminningar skal skrá í skýrslu yfirdómara í WorldFeng og opinberar áminningar eru birtar á heimasíðu FEIF.

Höfundur er Þorvaldur Kristjánsson, hrossaræktarráðunautur

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar