Efnaskiptafaraldur ógnar velferð íslenska hrossastofnsins
Í skjóli framfara í fóðrun og meðferð hrossa stendur íslenski hrossastofninn frammi fyrir nýjum ógnum. Efnaskiptasjúkdómar eru vaxandi vandamál með þeim afleiðingum að sífellt fleiri hross líða fyrir hófsperru og fleiri fylgikvilla sem af þeim hljótast.
Tveir efnaskiptasjúkdómar eru algengir í hrossum hér á landi og geta báðir valdið hófsperru.
1. Efnaskiptaröskun (EMS)1
Hestar nærast fyrst og fremst á kolvetnaríku fóðri, grasi eða heyi. Yfirleitt inniheldur fóðrið blöndu af einföldum sykrum (léttleystum) og flóknari kolvetnum en hlutföllin geta verið mismunandi. Einföldu sykrurnar sogast hratt upp í meltingarveginum og berast þannig í blóðrásina á meðan leið flóknari kolvetna liggur áfram í víðgirnið þar sem þau eru brotin niður með hjálp örvera. Insúlín er boðefni (hormón) sem gegnir því megin hlutverki við að halda styrk glúkósa í blóði stöðugum með því að koma honum í brennslu í vöðvum og öðrum frumum líkamans eða fitumyndun í lifur. Þetta verk vinnur insúlín með hjálp viðtaka sem er að finna á yfirborði frumna.
Insúlín mótstaða (IR)2 er grundvallar þáttur EMS
Langvarandi aðgangur að orkuríku fóðri setur stöðugt álag á stjórnun glúkósa í blóði og leiðir til minni virkni í insúlín viðtökum á yfirborði vöðvafrumna. Þetta kallast insúlín mótstaða og er grundvallar þáttur efnaskiptaröskunar hjá hrossum. Líkaminn bregst við með því að auka framleiðslu á insúlíni enn frekar til að nýta betur þá takmörkuðu virkni sem enn er til staðar. Þar með verður styrkur insúlíns í blóði of hár sem aftur hefur neikvæð áhrif á starfsemi annarra frumna líkamans, svo sem í innsta frumulagi æða, en viðkvæmastar eru frumur í hófkvikunni.
Ofgnótt insúlíns í blóði eykur stórlega hættu á hófsperru
Insúlín í háum styrk veldur frumuskemmdum í hófkvikunni sem byrja í fíngerðustu lamellunum (mynd 3). Aflögun lamellanna og viðgerðir á þeim valda með tímanum grófum röndum á yfirborði hófanna og breikkun á hvítu línunni, en það eru einkenni sem oft sjást hjá hestum sem fengið hafa árstíðabundna aðkenningu að hófsperru (myndir 4 a-d). Við lengra genginn sjúkdóm hefur orðið umfangsmeiri frumuskaði í kvikunni með bráðu bólguviðbragði þar sem losnar um tenginguna milli hófbeins og hófs.
Íslenski hesturinn í áhættu
Tíðni EMS í íslenska hrossastofninum er ekki þekkt enda er hún breytileg eftir árstíma, fóðrun og notkun hrossa svo eitthvað sé nefnt. Staðbundin fitusöfnun á makka og lend/taglrót er helsta sýnilega einkenni EMS en fyrstu stig sjúkdómsins getur verið erfitt að greina. Sjúkdómurinn er því oft langt genginn þegar hann greinist og hrossið gjarnan komið með hófsperru, annað hvort langvinna eða bráða.
Greiningarpróf fyrir EMS eru til en hafa lítið verið notuð hér á landi. Þau byggja flest á mælingum á styrk insúlíns í blóði, annað hvort beint eða eftir sykurálag. Alla jafna mælist ekki hækkun á styrk glúkósa í blóði hesta við EMS ólíkt því sem gerist við efnaskiptaraskanir í öðrum dýrategudum, þ.m.t. sykursýki 2 í mönnum.
Rannsóknir hér heima og erlendis benda þó ákveðið til að íslenski hesturinn falli í hóp hrossakynja sem eru í aukinni hættu á að þróa með sér sjúkdóminn enda er hesturinn alla jafna léttur á fóðrum (easy keepers) og með mikla tilhneigingu til fitusöfnunar. Sú bylting sem varð í heyöflun í landinu með rúlluvæðingunni fyrir rúmum 30 árum hefur jafnt og þétt leitt til aukinnar vetrarfóðrunar og minna er um að hross leggi af yfir veturinn. Mögulega hefur umtalsverð fækkun hrossa á sama tímabili, sem og annars búfjár, einnig aukið aðgang að kraftmiklu beitilandi. Auk þess er algengt að hross hafi aðgang að einföldum sykrum (melassa) í bætiefnafötum stóran hluta ársins og hross séu fóðruð með kjarnfóðri gagnrýnislaust.
Nú er svo komið að dýralæknar og dýraeftirlitsmenn greina margir frá gríðarlegri aukningu í tíðni hófsperru í hrossum hér á landi. Í raun er um að ræða hljóðlátan faraldur efnaskiptaröskunar og langvinnrar hófsperru með árstíðabundnum einkennum sem sífellt oftar birtist sem kvalafull bráðahófsperra.
Hvað veldur EMS?
Flókið samspil erfða og umhverfis liggur að baki EMS. Líklegt er talið að eiginleikinn að lifa af litlu, sem hefur hjálpað hrossum að lifa af á norðlægum slóðum, tengist hættunni á EMS erfðafræðilega. Hross á öllum aldri og kyni geta þróað með sér EMS en áhættan eykst með aldri.
Fóðrun og hreyfing
Ekki leikur vafi á að offita auki líkur á efnaskiptaröskun hjá hrossum og næri sjúkdóminn þó nú sé talið að fleiri og flóknari orsakir geti legið að baki. Þannig raskar aukinn fitumassi efnaskiptum fitu með margvíslegum áhrifum. Fitufrumur framleiða boðefnið leptin sem gefur heilanum boð um að draga úr áti og nota orku. Við mikla fitusöfnun verður þetta kerfi ónæmt, hjá sumum hrossum a.m.k. Sýnt hefur verið fram á að hækkun insúlíns og leptíns fylgist að í blóði hesta. Það eru samt sem áður ekki bara feit hross sem eiga á hættu að fá EMS, heldur er hættan til staðar hjá öllum hrossum sem hafa aðgang að orkuríku fóðri.
Staðbundin fitusöfnun á makka, lend og við taglrót er hins vegar fremur einkenni EMS og þar með áþreifanlegur áhættuþáttur fyrir hófsperru. Til lengri tíma grennast hross með EMS þótt harður makkinn standi eftir sem vitnisburður um staðbundna fitusöfnun í fyrri tíð (mynd 1).
Líkt og hjá mönnum er hreyfing til þess fallin að draga úr insúlínviðnámi og minnka bólguviðbragð. Jöfn og uppbyggileg hreyfing er því mikilvæg til að fyrirbyggja efnaskiptaröskun, en líka til að auka virkni insúlín viðtaka í vöðvafrumum á ný og snúa þróuninni við að einhverju leyti hjá hrossum sem eru komin með EMS.
Fyrirbyggjandi aðgerðir eru lykilatriði og snemmtæk íhlutun getur skipt sköpum
Hestum er mjög óhollt að fitna umfram rífleg reiðhestahold (holdastig 3,5) og það ber að fyrirbyggja. Harður makki með fitusöfnun er greinilegasta einkenni EMS og mikil hætta er á að slíkir hestar hafi þróað með sér insúlín viðnám og verði í aukinni hættu á að fá hófsperru allt sitt líf. Hægt er að draga úr styrk insúlíns í blóði með því að grenna hross og auka hreyfingu en insúlín viðnám læknast ekki að fullu og skapar áfram undirliggjandi áhættu fyrir hófsperru og aðrar aukaverkanir, einkum ef aðgengi að einföldum sykrum eykst á ný.
Nauðsynlegt er að hafa eftirlit með holdafari hrossa á einstaklingsgrunni og stjórna aðgengi að beit eða fóðri í samræmi við það. Hross þurfa umfram allt trefjaríkt fóður, svo sem síðslegið hey eða beit á úthaga þar sem meira er um trénisríkar grastegundir samanborið við ræktað land. En jafnvel þar getur nýgræðingurinn orðið hrossum með undirliggjandi EMS skeinuhættur.
Hross á útigangi
Hrossum sem er ætlað er að vera á útigangi allan veturinn þarf að tryggja góða haustbeit, helst á úthaga. Æskilegt er að þau mæti vetrinum í ríflegum reiðhestsholdum (3+-3,5) en miða skal vetrafóðrun við að þau leggi af hægt og bítandi þannig að þau séu í holdastigi 2,5 – 3 að vori. Til að tryggja að þau verði hvorki of feit eða grönn er nauðsynlegt að flokka hross og fóðra eftir fóðurþörfum. Mjólkandi hryssur og ungviði í vexti þurfa mest atlæti á meðan takmarka þarf fóðrun á fullorðnum geldhrossum í góðum holdum. Forðast skal að hross hafi annan aðgang að einföldum sykrum, svo sem melassa og fóðurbæti. Hross á útigangi á rúmu landi hafa frelsi til að stjórna hreyfingu sinni sjálf. Þau ættu ekki að standa stanslaust í heyi en fóðruð í samræmi við þarfir og aðgang að beit. Sumarbeit þarf að takmarka verulega hjá heilbrigðum, fullorðnum hrossum að undanskildum mjólk-andi hryssum og ferða- eða keppnishrossum í mikilli notkun, en jafnvel þau eiga lítið erindi á ræktað land fyrr en mögulega seint að hausti. Hross á húsi Sífellt algengara er að hross komi of feit á hús eftir náðuga daga í sumarhögum. Ekki er gott að grenna þau of hratt, bæði út frá dýravelferðarsjónarmiði (svelti veldur vanlíðan) og líffræðilegum þáttum (hækkar fitu í blóði) og á það við hvort sem um er að ræða fyrirbyggjandi aðgerð eða sem viðbrögð við EMS. Óhætt er talið að hross léttist um 0,5-1% af heildarþyngd á viku og ætti sá árangur að nást með því að gefa trefjaríkt hey sem nemur 1,4-1,7% af þyngd hestsins daglega. Innihald léttleystra sykra ætti ekki að fara yfir 10% í heyi ef hross eru komin með EMS eða í hættu á að fá sjúkdóminn.
Kjarnfóðurgjöf skal takmarka svo sem kostur er því mikil orka (einfaldar sykrur) getur beint efnaskiptunum á óheillabraut þó svo að hrossið sé í mikilli þjálfun t.d. vegna sýninga og keppni. Steinefnagjöf er hins vegar nauðsynleg.
Góð hreyfing er hrossum nauðsyn og grundvallaratriði til að fyrirbyggja EMS og hófsperru. Ekki verður þörf á að takmarka fóðrun jafn mikið og hjá hrossum sem fá litla hreyfingu, sem bætir lífsgæði þeirra.
Frjáls hreyfing svo sem í rekstri eða í rúmum hólfum ætti ævinlega að koma til viðbótar þjálfun í reið og engin hross ættu að standa á húsvist eða í þröngum hólfum án þess að fá góða hreyfingu. Lágmarks hreyfing fyrir hross á húsi er um 30 mínútur af snarpri þjálfun auk léttari hreyfingar 5 daga vikunnar, að því gefnu að hrossin séu heilbrigð (ekki með stoðkerfisvanda) og aðlöguð þjálfuninni.
Þegar skaðinn er skeður
Um leið og hross er komið með einkenni hófsperru snýst dæmið við þar sem takmarka verður hreyfingu í samræmi við einkennin. Hross með bráða hófsperru má alls ekki hreyfa þar sem hætta er á að hófbeinið losni frá hófveggnum við tog beygisina. Aðeins má hreyfa hross ef kvikan nær að þjóna því hlutverki að tengja hófbein og hófvegg með tryggum hætti. Því þarf að meta vel ástand hrossa sem hafa fengið hófsperru (langvinna eða bráða) og auka hreyfingu jafnt og þétt í samræmi við bata og aðrar aðgerðir. Mjúkt undirlag er nauðsynlegt í byrjun.
Möguleikar á lyfjameðferð gætu verið innan seilingar en í raun ekki spennandi framtíðarsýn að stór hluti hrossastofnsins þurfi að ganga á lyfjum að verulegu leyti vegna vanþekkingar og vangetu til að mæta þörfum hrossanna. Að því sögðu skal endurtekið að erfðaþátturinn er sterkur og ekki verður „feigum forðað“ í öllum tilfellum.
2. Stýrihormónaröskun í hrossum (PPID)3
Miðhluti heiladinguls gegnir mikilvægu hlutverki við framleiðslu stýrihormóna fyrir starfsemi nýrnahetta og þar með stjórnun á grunnefnaskiptum líkamans.
Stækkun á miðhluta heiladinguls með röskun á stýrihormónum, er aldurstengdur sjúkdómur sem herjar á 20 – 25% hrossa eldri en 15 vetra og er það talið eiga við um öll hrossakyn. Ekki hefur verið sýnt fram á erfðaþætti sem tengjast sjúkdómnum né arfgengi en áhrif erfða hafa þó ekki verið útilokuð. Einkennin eru lúmsk í byrjun og sjúkdómurinn uppgötvast því sjaldnast fyrr en hann er langt genginn. Öruggasta og augljósasta einkennið er að hrossin ganga ekki úr vetrarhárum með eðlilegum hætti. Fyrst um sinn er breytingin á feldinum ekki áberandi en versnar smám saman, hárin lengjast þar til hrossið lítur út eins og bjarndýr (mynd 5). Önnur einkenni eru deyfð, vöðvarýrnun (þ.m.t. slappir kviðvöðvar), beinþynning, tannholdsbólga, þorsti og mikil þvaglát, þau svitna mikið, verða næm fyrir sýkingum (þ.m.t. ormasýkingum), ófrjósemi, breyting á atferli, óeðlileg fitusöfnun, ofgnótt insúlíns í blóði og hófsperra.
Hófsperra er næst algengasta einkennið á eftir óeðlilegu hárafari, en um helmingur hrossa með stýrihormónaröskun fær hófsperru tengda insúlín mótstöðu. Jafnvel er talið að þau hross séu með EMS samhliða og að PPID skapi sérstaka hættu á EMS.
Vöðvarýrnun, einkum í yfirlínu og kvið, er einnig algengt einkenni þar sem niðurbrot á próteinum virðist hafa náð yfirhöndinni. Þá verða kvíslböndin sérlega viðkvæm fyrir niðurbroti.
Greining og meðhöndlun
Breytingar á feldi þar sem hrossin ganga ekki úr vetrarhárum og feldurinn verður langur og stríður er öruggt merki um sjúkdóminn en til að greina hann á fyrri stigum getur þurft að mæla styrk adrenókortikótrópik-hormóns (ACTH) í blóði. Jákvæð svörun við lyfjameðhöndlun getur ennfremur staðfest greiningu. Lyfjameðferð (Pergolyte Mesylate) getur slegið mjög á einkennin en er fyrirhafnasöm og dýr (dagleg lyfjagjöf í munn) og hefur ekki verið mikið notuð hér á landi, þrátt fyrir að sjúkdómurinn sé algengur. Meðhöndlun setur hross í keppnisbann enda eiga þessi hross lítið erindi á þann vettvang þó svo létt þjálfun geti verið af hinu góða á meðan einkennin eru væg.
Eigendur þurfa að gera sér grein fyrir að hestar með framangreind einkenni eru sjúklingar sem þurfa mikla aðhlynningu
Ef grunur leikur á hófsperru þarf að meðhöndla þann sjúkdóm, sjúkrajárna og passa uppá að hrossin hafi ekki aðgang að orkuríku fóðri. Samhliða þarf að líta til þess að hrossum með PPID hættir til að leggja af og tapa vöðvum og eru þá í þörf fyrir mikla og góða næringu. Þetta getur verið erfitt að sameina. Sérstök hætta er á skorti á B12 vitamíni. Útbreidd tannholdsbólga og jafnvel tannlos eru einkenni sem þarf að sinna af kunnáttu en hætt er við að þau dragi úr átgetu, einkum á gróffóðri. Ónæmiskerfið verður veikburða og mikil hætta á sýkingum, ekki sýst ormasýkingum. Þessi hross þurfa því ormameðhöndlun á pari við ungviði og gæta þarf að smitvörnum. Hrossin geta átt í vanda með hitastjórnun sem þarf að bregðast við með því að raka þau og skýla fyrir sól eða veðri, eftir árstíma og aðstæðum.
Stýrihormónaröskun er algengur og alvarlegur sjúkdómur hjá eldri hestum sem verður sífellt algengari hér á landi í framhaldi af því að hross eru gjarnan látin lifa lengur en áður tíðkaðist. Fyrstu einkennin fara iðulega framhjá eigendum og sjúkdómurinn greinist venjulega ekki fyrr en hann er kominn á alvarlegt stig. Snemmgreining og lyfjameðferð er í raun nauðsynleg til að viðhalda ásættanlegum lífsgæðum og notkun á þessum hestum en dugar þó ekki til ef hrossin þjást samhliða af hófsperru. Varanleg lækning er ekki til.
Framangreindir efnaskiptasjúkdómar eru algengastir í hrossum sem hafa litlu hlutverki að gegna og er oft og tíðum lítill gaumur gefinn. Það er sárt að horfa uppá slíka vanrækslu draga úr lífsgæðum hrossa.
1 Equine metabolic syndrome, EMS
2 Insulin resistance, IR/Insulin dysregulation, ID
3 Pituitary Pars Intermedia Dysfunction, PPID
Höfundur:
Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossa hjá Matvælastofnun – sigridur.bjornsdottir@mast.is
Helstu heimildir:
Durham AE, Frank N, McGowan CM, Menzies-Gow NJ, Roelfsema E, Vervuert I, Feige K, Fey K. ECEIM consensus statement on equine metabolic syndrome. J Vet Intern Med. 2019 Mar;33(2):335-349. doi: 10.1111/jvim.15423. Epub 2019 Feb 6. PMID: 30724412; PMCID: PMC6430910.
Delarocque J, Frers F, Huber K, Jung K, Feige K, Warnken T. 2021. Metabolic impact of weight variations in Icelandic horses. PeerJ 9:e10764 https://doi.org/10.7717/peerj.10764
Delarocque, J., Frers, F., Huber, K. et al. Weight loss is linearly associated with a reduction of the insulin response to an oral glucose test in Icelandic horses. BMC Vet Res 16, 151 (2020). https://doi.org/10.1186/s12917-020-02356-w
Kirkwood NC, Hughes KJ, Stewart AJ. Pituitary Pars Intermedia Dysfunction (PPID) in Horses. Vet Sci. 2022 Oct 10;9(10):556. doi: 10.3390/vetsci9100556. PMID: 36288169; PMCID: PMC9611634.
Pollitt CC 2004. Anatomy and Physiology of the Inner Hoof Wall. Clinical Techniques in Equine Practice. doi:10.1053/j.ctep.2004.07.001