Draumaferðin á Sprengisandi
Margir hestamenn kannast við það að þeysa um hálendi Íslands í hestaferðum á sumrin og er það að margra mati toppurinn á hestamennskunni. Í tölublöðum Eiðfaxa hefur í gegnum áratugina verið birtar ferðasögur hestamenna. Í tölublaði Eiðfaxa árið 2021 skrifaði Einar Á. Sæmundsen slíka grein um ferð yfir Sprengisand. Hún birtist nú hér á vefsíðu Eiðfaxa.
Fótfimi, ásetugæði, þol og traust eru meðal þeirra eiginleika sem einna mikilvægast er að varðveita í íslenska hestinum, því þeir hafa skapað honum vinsældir meðal þeirra tugþúsunda sem nýta hann til styttri eða lengri hestaferða, víðs vegar um heiminn. Þetta vita flestir hestamenn og þá sérstaklega þeir sem hafa nýtt hestinn á þennan hátt. Bjarni Páll og Elsa Björk eru ein af þeim aðilum en þau reka ferðaþjónustufyrirtæki að Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu. „Við höfum verið í nærri 30 ár í hestaferðum og þá aðallega fyrir norðan í Þingeyjarsýslum. Ég hef þó reglulega farið inn á hálendið með fastakúnna. Árið 2016 fór ég svo ríðandi með hóp norður á Fljótsdal og austur alla firði, suðursveitina, Hornafjörð, vestur um með ströndinni og svo norður sprengisand.“ Segir Bjarni Páll og heldur áfram. „Í þessu Covid ástandi fór ég síðan að velta því fyrir mér að gera eitthvað alveg magnað. Við skipulögðum því 57 daga hestaferð sem er í heildina tæpir 2000 kílómetrar og bæta vesturhelmingi landsins við þessa ferð sem farinn var árið 2016 og loka þar með hringnum. Við byrjuðum á því að ríða suður Sprengisand í Gnúpverjahrepp, þaðan á Þingvelli í Borgarfjörð um Vesturland upp á Snæfellsnes, Vestfirði og suður Strandir. Þegar þetta er ritað erum við með hestana í Húnavatnssýslu og leggjum af stað á morgun í sex daga ferð til Skagafjarðar. Þaðan tökum við svo síðasta legg ferðarinnar heim í Þingeyjarsýslu.“ Með Bjarna Páli, Elsu Björk og þeirra fólki í för hafa verið ýmsir hestamenn. Einn þeirra er Einar Ásgeir Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. Hann ritaði þessa skemmtilegu frásögn sem fylgir hér á eftir og fjallar um fyrsta kafla ferðarinnar yfir Sprengisand.
Í sól og sumaryl
Ríðum ríðum rekum yfir sandinn ómaði i höfðinu á mér þegar lagt var af stað suður Sprengisand sólbjartan sumardag um miðjan júlí. Ég hafði fengið boð sem ég gat ekki hafnað, að vera rekstrarmaður í fyrsta legg af sex um landið í Draumaferðinni á vegum Saltvík hestaferða við Húsavík, þar sem Bjarni Páll og Elsa Björk eiginkona hans, ráða ríkjum. Ég hef oft farið ríðandi um Kjöl, Fjallabak og fjölmargar aðrar slóðir, en aldrei um Sprengisand. Þetta var því tækifæri sem ég gat ekki látið fram hjá mér fara þegar það gafst. Það var eftirvænting og spenna í lofti þegar knapar stigu í hnakk við Aðalból í Aðaldal þar sem hrossum hafði verið safnað saman. Það var vel við hæfi að hefja þessa ævintýraferð á söng en Bjarni Páll og Rikki ,mágur minn, leiddu söng fyrir hópinn með laginu Á Sprengisandi sem allir hestamenn kunna. Það var ekki í fyrsta eða síðasta skipti sem lagið var sungið í ferðinni og tóku erlendu gestirnir strax vel undir og fóru vel með textann, enda er lagið flestum hestamönnum á erlendri grundu vel kunnugt. Að því loknu kom forreiðin sér fyrir, hliðin opnuð og ævintýrið hófst. Stóðið rann af stað og eftirreiðin átti fullt í fangi með að halda í við hópinn fyrstu kílómetrana þar sem hrossin voru æst og spennt að leggja í hann. Knapar voru af ýmsum þjóðernum og flestir með ágæta reynslu, en alls voru fimmtán erlendir gestir og um fimm Íslendingar í hnakk. Bjarni Páll gaf skipanir um hverjir gestanna væru í forreið og hverjir í eftirreið allt eftir því hvaða hrossum þeir voru á. Við hin gerðum hið sama með okkar eigin hestakost. Ég var ekki einn á ferð sem sérfræðingur að sunnan en systir mín, Sólrún, og hennar maki Ríkharður Gunnar ,eða Rikki eins og hann hefur áður verið kallaður í greininni, voru einnig með í för, Rikki og Bjarni Páll þekkjast frá fornu fari. Að auki var ein af mörgum uppáhaldsfrænkum mínum, Guðbjörg Ólafsdóttir, með í ferðinni. Annar vaskur hestamaður og reyndur rekstrarmaður Gunnlaugur Briem var einnig með í rekstrarteyminu fyrir utan Bjarna Pál sem stýrði ferðinni.
Við höfðum komið hrossum okkur norður, bæði ríðandi og akandi. Í júní riðum við fyrst um Mela og Leirársveit um Borgarfjörð og norður fyrir Bifröst, þaðan sem hrossunum var ekið í Miðfjörðinn og viku síðar riðið þvert yfir Húnaþing að Bólstaðarhlíð við Vatnsskarð. Síðar var öllum ferðahrossum okkar ekið í einum bíl að upphafsstað ferðarinnar í Aðaldal. Hrossin voru því í ágætu formi þegar á hólminn var komið. Sólin skein skært og ekki var skýhnoðri á himni og rykið því allt umlykjandi fyrsta daginn áleiðis inn Bárðardalinn, eftir viðkomu við Goðafoss og víðar. Fyrstu tvær nætur í gistingu voru í félagsheimilinu Kiðagili þar sem gestrisni og góður matur er í hávegum hafður. Daginn eftir var haldið áfram með Skjálfandafljóti þægilega stutta dagleið að Mýri á mjúkum moldargötum. Það var fljótt ljóst að það voru ekki bara hestar og menn í ferðinni þar sem að flugan var allt um kring og naut þess að ögra hestum og mönnum. Flugnanetið varð strax jafn mikilvægt og hnakkurinn í þessari ferð enda magnaðist mývargurinn upp í hitanum og sólinni.
Mýri er þjóðþekkt býli syðst í Bárðardal og hefur verið áningarstaður þeirra sem koma af Sprengisandi eða leggja á hann um aldirnar. Sveinbjörn bóndi á Mýri tók á móti hópnum og sagði sögur, en af honum geislaði yfirvegun og gestrisni sem honum er í blóð borin. Þegar lagt er upp frá Mýri er ljóst að skilið er við byggð og óbyggðir taka við. Stefnan var tekin í Laugafell en þangað var tveggja daga reið með áningu í Fossgilsmosum. Leiðin lá vestan við Íshólsvatn og um Mjóadal þar til komið var að Fossgilsmosum. Falleg leið og mjúk undir hófa að mestu. Sólin bakaði hópinn og flugan reyndi að finna göt á flugnanetum okkar. Reglulega voru tekin línustopp og ávallt passað að hafa þau nærri vatni fyrir hrossin þar sem hitinn var mikill. Gunnlaugur gisti í tjaldi við Fossgilsmosa en gerðið er mjög nálægt veginum og vissara þótti að hafa augun á hrossunum.
Svartur sandur
Enn skein sólin þegar farið var áleiðis í Laugarfell og fjallasýnin allt um kring glapti knapa og hesta. Á leiðinni breytist ásýnd landsins mikið og melar, grjót og sandar taka við. Frá Fossgilsmosum var að hluta til farið með vörðuðu leiðinni með Kiðagilsánni og í Kiðagilsdrögum en að endingu með veginum í Laugafell þar sem heit laugin beið og gladdi hópinn. Ekki var laust við að hugurinn leitaði til ferðalanga fyrr á tímum sem lögðu á sandinn með minni kost eða við verri aðstæður en við gerðum. Sögur voru rifjaðar upp af frásögnum ferðamanna sem höfðu farið tvöfaldar eða þrefaldar dagleiðir og lifað til að segja frá því. Ég velti fyrir mér hvernig væri að fara þessa leið í slæmu skyggni og kalsa rigningu og þakkaði fyrir bakandi sólina og fjallasýnina. Til suðurs blasti við Vatnajökull með Bárðarbungu og til vesturs sást fljótlega í Hofsjökul. Allir sem aka Sprengisand velkjast ekki í vafa um að þarna er eyðimörk en á hestbaki verður hún miklu meiri og yfirþyrmandi og ótrúleg yfir að líta. Sandöldur og melar bera við alls staðar og hvergi er stingandi strá að sjá og er það því mikil áskorun að skipuleggja slíka hestaferð. Vatn er nægt en alls staðar þarf að gera ráð fyrir því að komið sé með heyrúllur.
Vel þarf að fylgjast með járningum enda sandurinn fullkominn sandpappír með steinum og grjóti inn á milli og þrátt fyrir að vel hafi verið járnað fyrir ferðina er alltaf eitthvað sem dettur undan eða fer að skrölta. Hver dagur byrjaði á einhverjum járningum enda hrossin um 80 sem gera um 320 hófa. Á hverjum morgni var því gengið spekingslega um hólfin og hófar skoðaðir og alltaf var von á einum eða fleirum skeifnalausum eða skröltandi járningum.
Trússarar og góður matur gegna alltaf lykilhlutverki í hestaferðum og ekki minnkar ábyrgðin og annað daglegt utanumhald þegar hópurinn er eins stór og nú var á ferð. Hjónin Hjörtur og Eva Hjörtína sinntu því hlutverki með miklum sóma. Öllu var sinnt, skutl með knapa, opna og loka hliðum, smala hrossum og týna saman það sem eftir lá þegar hópurinn hvarf í rykmekki. Í lok dags var alltaf góður matur framborinn og morgunverðarhlaðborð að morgni sem góð hótel hefðu verið ánægð með.
Frá Laugafelli lá leiðin í Háumýrar og enn var sólin á lofti og hitinn hækkaði og átti það eftir að hafa áhrif á næstu dögum. Í einu góðu stoppi rétt áður en skilið var við trússbíla sunnan við Laugafelli hafði verið sett upp lítið girðingarhólf fyrir góða áningu. Þegar kom að því að beisla og leggja á gekk erfiðlega ná einum klár. Hann lét sig ekki og náði að hlaupa undan í öll horn. Að endingu stökk hann á girðinguna og dró hana með sér þannig að stóðið trylltist og stökk út á sandinn. Það voru góð ráð dýr en einhverjir knapar voru með tilbúna hesta í hönd og náðu að hleypa í veg fyrir með öskrum og hljóðum. Skammt frá náðist að koma í veg fyrir stóðið og smala því til baka. Það var þó óneitanlega óþægileg og sérstök tilfinning að sjá stóðið hlaupa út á sandinn og kveðja okkur um stund. Ég hafði gripið hest af gesti og þeysti af stað og þegar komið var til baka stundi gesturinn upp að hún hefði ekki verið búin að girða hestinn vel og skildi ég þá hvers vegna ég vaggaði vel í beygjunum.
Það er gaman að sjá hvernig hrossin lesta sig og finna sinn stað í rekstrinum, para sig saman og fylgjast að í minni hópum. Þar skiptir máli hvaðan hrossin koma og hve vön þau eru að vera saman. Hrossin frá Saltvík voru vel kynnt og lestuðu sig af gömlum vana en hrossin okkar að sunnan voru í miklum minnihluta og áttu stundum erfitt með að finna sinn stað og ekki ósjaldan fór hópurinn okkar til hliðar og tók sína leið. Reglulega var hleypt fyrir og til að koma stjórn á hrossin.
Áfram var haldið á endalausum sandinum og verður að segjast að fjallasýnin og umhverfið kallaði á athygli. Arnarfell og Hofsjökull blöstu við til vesturs og Tungnafellsjökull og Vatnajökull að austanverðu og ekki ský á himni.
Óhapp á miðju Íslands
Á miðjum Sprengisandi varð óhapp þegar hestur rétt fyrir aftan mig hrasaði með knapa sinn og við það hvekktist klárinn minn og rauk út undan sér. Ég missti jafnvægið og hitti fyrir fósturjörðina nákvæmlega í miðju Íslands og lemstraðist illa á öxl og brákaði eða braut nokkur rif. Hinn knapinn skrámaðist í andliti en var þó ekki illa haldin. Eftir smá aðhlynningu var áfram riðið suður í Háumýrar í næturstað til að hitta bíla til að knapar kæmust í gistingu í Versölum.
Eftir þetta óhapp fór ég ekki meira á bak í ferðinni en fylgdi hópnum aðeins daginn eftir og tók myndir og þvældist fyrir trússurum. Það var kannski eins gott þar sem að daginn eftir byltuna var heitasti dagurinn í ferðinni og sjaldan hef ég verið á hálendi Íslands í annarri eins brækju. Ég fylgdist með hestalestinni úr fjarska liðast áfram í hillingum yfir sandinn. Reglulega var stöðvað við læki sem voru á leiðinni. Áherslan var allan tímann á að hestarnir drykkju nægilega en margir knapanna gleymdu að drekka til að vega upp á móti vökvatapinu í hitanum. Þegar í Versali var komið um kvöldið var ljóst að ýmsir knapar sýndu alvarleg einkenni ofþornunar þar sem máttleysi, sinnuleysi, höfuðverkur og þreyta lagðist yfir þá sem verstir voru og til að bæta við kvölina fylgdi magakveisa. Allt dæmigerð einkenni ofþornunar vegna vökvaskorts. Næstu daga vantaði nokkra knapa og einhverjir komust ekki aftur í hnakkinn það sem eftir lifði ferðar. Þetta varð öllum dýrmæt lexía í að drekka mikið vatn með söltum í svo miklum hita enda er ofþornun að öllu jöfnu ekki mjög algeng í hestaferðum hér á landi.
Frá Versölum var farin hefðbundin leið niður í Þóristungur og þaðan í Hólaskóg. Þrátt fyrir veikindi ýmissa sóttist ferðin vel undir stjórn Bjarna Páls sem les gesti sína og allar aðstæður vel. Það var við hæfi að sunnlensk rigning og súld fylgdi knöpum síðasta legginn um Þjórsárdal þar til komið var í Fossnes þar sem lauk fyrsta legg af sex í magnaðri Draumaferð þeirra hjóna Bjarna Páls og Elsu Bjarkar um Ísland.
Ævintýrinu var þar lokið fyrir okkur knapana sem höfðum farið að mestu eða öllu leyti þessa fornfrægu leið og Ríðum ríðum rekum yfir sandinn ómaði enn og aftur langt fram á morgun í lokaveislu ferðarinnar sem haldin var í Fossnesi.