Andlát Skúli Steinsson er fallinn frá

  • 22. ágúst 2024
  • Andlát Sjónvarp Fréttir

Skúli, þriðji frá vinstri, situr á Vestra frá Bláfeldi á Landsmótinu á Vindheimamelum árið 1974.

Riðið hefur um gjallarbrú Skúli Steinsson á Eyrarbakka

Það kvarnast úr hópi þeirra hestamanna sem ruddu brautina fyrir þá sem á eftir komu, fallinn er frá Skúli Steinsson á Eyrarbakka. Hann var fæddur þann 7.desember árið 1941 og var því á 83. aldursári.

Steinn Ævarr Skúlason, sonur Skúla, segir frá því á fésbókarsíðu sinni að Skúli hafi fallið af hestbaki og hlotið af því áverka sem reyndust honum um megn og hann kvaddi þessa jarðvist umvafinn ástvinum á þriðjudagskvöld.

Hann var á meðal fremstu knapa landsins um langt árabil og keppti m.a. til úrslita í gæðingakeppni á Landsmótum. Hann sýndi Blesa frá Kirkjubæ til A-úrslita á Landsmótinu á Skógarhólum árið 1970, Vestra frá Bláfeldi til A-úrslita í B-flokki á Landsmótinu 1974 á Vindheimamelum og Frama frá Krikjubæ í A-úrslitum í A-flokki árið 1978 á Skógarhólum. Þá varð hann margoft handhafi Sleipnisskjaldarins hjá Hestamannafélaginu Sleipni auk fjölda annarra afreka. Hann var starfandi gæðingadómari um langt árabil og dæmdi mörg mót bæði stærri og minni.

Í tölublaði Eiðfaxa árið 2014 birtist viðtal við Magnús Skúlason, margverðlaunaðan knapa, heimsmeistara og son Skúla Steinssonar. Í því viðtali segir svo frá:

Magnús er fæddur og uppalinn á Eyrarbakka en faðir hans Skúli Steinsson er lifandi goðsögn í íslenskri reiðmennsku. “Magnús er alinn upp í hestum með mér og má því segja að þetta sé allt mér að kenna” segir Skúli í stuttu samtali og bætir við að Magnús hafi allt frá upphafi verið mjög ákveðinn og einbeittur í flestu því sem hann taki sér fyrir hendur. “Magnús er mjög einbeittur og skipulagður, en það hefur hann frá móður sinni og er laus við athyglisbrestinn frá mér” segir Skúli og hlær við.

Fjórðungsmót á Rangárbökkum 1972 Tölt, 5. sæti Erpur frá Vatnsleysu. Knapi, Skúli Steinsson. Ljósmynd: Einar Eylert Gíslason

Eiðfaxi óskar eftirlifandi ástvinum og fjölskyldu Skúla samúð.
Viðamikið viðtal við Skúla er að finna á youtube rás Hestsamannafélagsins Sleipnis þar sem hann fer yfir ferilinn. En það má horfa á hér fyrir neðan.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar