„Eftirspurnin eftir vel tömdum keppnishrossum alltaf mikil“

  • 29. ágúst 2024
  • Fréttir
Útflutningur á hrossum legið niðri í sumar

Eins og sagt var frá á vef Eiðfaxa í kringum Norðurlandamótið og Bændablaðið fjallaði um á vef sínum, hefur útflutningur á hrossum legið niðri frá því í byrjun júlí.

„Það er vel skiljanlegt að fraktvélin sem sinnir útflutningnum þurfi að fara í þessar skyldu skoðanir og yfir sumartímann er yfirleitt minna að gera í útflutningnum og því alveg hægt að skipuleggja sig í kringum þessar skoðanir. Þetta er því ekki vandamál að svo stöddu en ef flugið tefst fram yfir það sem nú er áætlað gætum við farið að lenda í brasi.“ Segir Hulda Gústafsdóttir í samtali við Eiðfaxa, en hún hefur í gegnum fyrirtæki sitt Hestvit staðið í útflutningi hrossa síðan árið 1989. „Ef við værum til að mynda stödd núna á Heimsmeistaramótsári, þar sem þyrfti að flytja keppnishesta íslenska landsliðsins út, hefðum við lent í miklum vandræðum.“

Ástæða þess að ekki hefur verið flogið með hross í sumar er reglubundið eftirlit á þeirri flugvél sem sinnir útflutningnum.  Fyrsta flug var áætlað þann 21.ágúst síðastliðin en vegna tafa í skoðuninni er næsta flug áætlað í byrjun september.„Þrýstingur erlendra kaupenda, um að koma þeim hrossum sem þegar hafa verið keypt hér á landi, jókst mjög eftir síðustu frestun. Ef þetta dregst mikið meira gætum við séð fram á það að kaupendurnir snúi sjónum sínum að meginlandi Evrópu í leit sinni að hrossum.“ 

Í Covid jókst útflutningur á íslenskum hrossum mjög mikið og er sá tími ekki samanburðarhæfur við það sem eðlilegt hefur þótt í útflutningstölum. „Eftirspurnin eftir vel tömdum, auðveldum keppnishrossum er alltaf töluverður en maður finnur að minni eftirspurn er eftir frístundahrossum nú en til dæmis í Covid ástandinu. Það er þó ekki auðhlaupið að því að finna þau hross sem ég lýsti hér í byrjun en þau eru auðveldasta söluvaran og fyrir þau er yfirleitt borgað vel.“ Segir Hulda að lokum, spurð um sölumál, en hún er vongóð um að útflutningur hefjist að nýju í september og allt gangi upp að lokum með þau hross sem bíða útflutnings.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar