Burtu með slæma hegðun og dónaskap!
Slæm hegðun fólks í hestamennsku er stöðugt til umræðu og eru engir þátttakendur hennar undanskildir sama hvaða titil þeir bera. Hvort sem það eru dómarar, knapar, starfsfólk viðburða, sjálfboðaliðar, aðstoðarmenn knapa, foreldrar, eigendur hrossa o.s.frv. Það að sýna af sér vítaverða hegðun og dónaskap er eitthvað sem enginn ætti að tileinka sér. Því miður er það þó svo að greinarhöfundi berast reglulega til eyrna mál þar sem komið er illa fram við persónur og leikendur á hestamannamótum, stórum sem smáum.
Fréttir berast af ógeðfelldum smáskilaboðum og símtölum til dómara og fólk leyfir sér það einnig oft á mótsstað koma fram við þá af hörku og dónaskap, í stað þess að ræða við þá á málefnalegum grundvelli og fá útskýringu á hlutunum.
Verri dæmi eru til þar sem sjálfboðaliðar á mótum, sem gefa vinnu sína, fá yfir sig skít og skammir. Dæmi eru um það á mótum sumarsins að slíkir aðilar hafi verið beittir svo miklum dónaskap að þeir veigri sér við að taka aftur þátt í slíkum störfum. Hvað væri hestamennskan án þeirra sjálfboðaliða sem gefa tíma sinn til síns hestamannafélags sem gerir knöpum kleift að koma sér og sínum hrossum á framfæri?!?
Þá eru það dómararnir sem mættu oftar sína af sér fagmennsku og vera opnir fyrir spurningum knapa án þess að hlaupa í vörn og svara á ómálefnalegan hátt. Hegðun foreldra er svo enn þá stærri umræða sem teygir anga sína inn í allar íþróttagreinar.
Þessi dæmi fá mann til þess að velta því fyrir sér, hversu mikið af slíkum uppákomum rati í mótaskýrslur og hvað er svo gert við slíkar upplýsingar innan Landssambandsins?
Ég legg til að við hestamenn herðum enn þá frekar á þessum málum, áður en þau ná endanlega fótfestu og teljist sjálfsagður hlutur af leiknum. Agabrot er brot á þeim leikreglum sem settar eru og því þarf að herða á reglum og hvernig við meðhöndlum slæma framkomu.
Því skora ég á Landssamband hestamannafélaga að gera betur í þessum málum, en nú þegar er gert, og taka umræðu um það af fullri alvöru á komandi Landsþingi í haust hvernig er hægt að bæta um betur öllum til heilla.