Húni til Danmerkur
Landsmótssigurvegarinn Húni frá Ragnheiðarstöðum flýgur af landi brott í kvöld og fer til eigenda sinna þeirra Gitte Fast Lambertsen og Flemming Fast á Stutteri Lindholm Høje í Danmörku.
Húni er einn allra glæsilegasti stóðhestur samtímans og hefur hann m.a. hlotið einkunnina 9,5 fyrir höfuð, háls, herðar og bóga og samræmi. Í heildareinkunn fyrir sköpulag hlaut hann 8,89. Fyrir hæfileika hefur hann hæst hlotið einkunnina 8,63, sýndur sem klárhestur með 9,5 fyrir tölt, brokk, samstarfsvilja og fegurð í reið. Ræktandi Húna er Helgi Jón Harðarson en sýnandi hans og þjálfari hefur verið Helga Una Björnsdóttir.
Húni er stórættaður undan Sleipnisbikarhafa Landsmótsins í ár, Álfakletti frá Syðri-Gegnishólum, og heiðursverðlaunahryssunni Hendingu frá Úlfsstöðum. Það verður gaman að fylgjast með framgangi Húna á meginlandi Evrópu og sporum hans í ræktunarstarfinu til framtíðar.