Stofnverndarsjóður íslenska hestakynsins lagður niður
Í síðustu viku setti Fjármálaráðherra inn áform um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl. í samráðsgáttina. Þar kemur fram m.a. að til standi að fella niður stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins en verkefni sjóðsins eru að veita styrki til þróunar- og rannsóknaverkefna í hrossarækt.
Hafi fólk áhuga á að gera athugasemdir við frumvarpið þurfa þær að berast í síðasta lagi 4. október og skal skila þeim inn í gegnum samráðsgáttina.
Sjóðurinn stofnaður fyrir rúmum 50 árum
Stofnverndarsjóður var stofnaður árið 1973 eða fyrir rúmum 50 árum. Eins og nafn hans gefur til kynna var hann stofnaður til að viðhalda og vernda íslenska hestakynið. Á árunum 1976–1997 var eingöngu lánað og veittir styrkir til kaupa á úrvalskynbótahrossum. Efir það hafa eingöngu verið veitt framlög til þróunar- og rannsóknaverkefna í hrossarækt.
Fagráð í hrossarækt fer með stjórn Stofnverndarsjóðs.
Fjármagnaður af útflutning hrossa
Stofnverndarsjóður hefur frá upphafi verið fjármagnaður með gjaldi af útfluttum hrossum. Á fyrstu árum hans var upphæðin ákveðin % tala af útfluttum hrossum en í dag fara 1.500 kr. af hverju útfluttu hrossi til sjóðsins. Mikið hefur verið rætt undanfarin ár innan fagráðs um hvernig auka megi fjármagn sjóðsins. Var sett í reglur sjóðsins að óheimilt væri að skerða höfuðstól stofnverndarsjóðs að raungildi frá því sem var 1. janúar 1998. Gerð var undanþága fyrir þessu frá árinu 2015 í alla veganna fimm ár.
Samkvæmt grein Nönnu Jónsdóttur, formanni fagráðs hrossaræktar og deildar hrossabænda innan BÍ, hefur innheimta Stofnverndarsjóðs verið í lausu lofti síðustu ár. Einnig kemur þar fram að eftirstöðvar sjóðsins eru áætlaðar um 70 millj. kr. og mun meirihluti þeirra fara í uppfærslu á WorldFeng og/eða önnur verkefni sem fagráð telur aðkallandi fyrir íslenska hrossarækt.
Samkvæmt reglugerð eiga Bændasamtök Íslands að sjá um innheimtu fyrir sjóðinn en innheimtan hefur síðan færð til ríkissins. Samkvæmt fundagerðum fagráðs frá 2022 og 2023 kemur þar fram að gjaldið hafi ekki verið innheimt af hverju útfluttu hrossi en ríkið hafi staðið skil á greiðslum í sjóðinn samkvæmt árlegum útflutningi. Í fundargerðum fagráðs kemur fram að vilji Fagráðs væri sá að þessu yrði breytt yfir í fyrra horf þ.e.a.s gjaldið yrði innheimt hjá þeim sem sér um útgáfu hestavegabréfsins (RML) þegar hross eru að fara úr landi en ekki að ríkið kæmi að innheimtu.
Nýr sjóður hluti af búvörusamningum
Nanna segir jafnframt í grein sinni að það sé fagnaðrerindi að hrossaræktin sé komin undir þórunarfé búgreina.
Þróunarfé búgreina ákvarðast af búvörusamningum og er því framtíð þórunarfés til hestamanna óljós. Núvernadi búvörusamningur gildir til 2026 og mun því í framtíðinni ávallt þurfa að semja um þróunarfé með nýjum samningum.
Ekki hafa fengist svör hjá Nönnu um nánari útlistun á því hvað tekur við af stofnverndarsjóði, hversu háar fjárhæðir séu innan þessa nýja sjóðs (Afurð) og hversu öruggur sá sjóður er til framtíðar.
Verkefnin misjöfn og í kringum 200 milljónum úthlutað
Fagráð í hrossarækt hefur auglýst eftir umsóknum ár hvert og tekið ákvörðun um styrkveitingar. Verkefnin hafa verið misjöfn sem hafa hlotið styrki en hér fyrir neðan eru þau verkefni sem hafa verið samþykkt síðan árið 2012. Listinn er unninn upp úr fundargerðum fagráðs. Jafnframt er tekið fram hversu margir sóttu um ár hvert og hversu mikið fé var til úthlutunar það ár.
Frá upphafi sjóðsins hefur í kringum 200 milljónum verið úthlutað úr sjóðnum eftir því sem blaðamaður kemst næst, það gerir að meðaltali 4 millj. á ári. Samkvæmt fundargerðum fagráðs voru greiðslur úr sjóðnum árin 2004 – 2012 rúmar 43 milljónir, greiðslur árin 2013 – 2023 í kringum 89 milljónir og samkvæmt svari frá landbúnaðarráðherra árið 2003 var úthlutað úr sjóðnum rúmar 47 milljónir frá árunum 1976 til 2002, tæpar 32 milljónir fóru í styrki eða framlög og rúmar 15 milljónir voru lán.
2023 – Sjö umsóknir – 7.350.000 til úthlutunar
- Lokahluti doktorsverkefnis um erfðafræðilegan grunn gangtegunda íslenska hestsins
- Framþróun erfðagreininga í þágu íslenska hestakynsins
- Líkamsþungahlutfall milli knapa og hesta á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins og tengsl við árangur, heilbrigði og endingu
2022 – Níu umsóknir – 6.500.000 áætlað til úthlutunar
- Samanburður á ónæmissvari folalda og fullorðinna hrossa í kjölfar bólusetningar gegn Sumarexemi
- Innleiðing á kynbótamati keppniseiginleika
- Forrannsókn á erfðamörkum og hormónum sem tengjast velferð og lærdómsgetu reiðhesta
- Tíðni magasára í hrossum á Íslandi sem eru á útigangi
- Blóðhagur, blóðgildi og hormónastaða í íslenskum folaldshryssum
- Erfðafræðilegur grunnur gangtegunda íslenska hestsins; hvaða þættir ráða eða hafa áhrif á ganghæfni og gæði gangtegundanna?
2021 – Þrjár umsóknir – 2.500.000 úthlutað
- HorseDay – Lok þróunar og leiðin á markað
- Fræðsluvefur Hrímnis
2020 – Ellefu umsóknir – 6.000.000 til úthlutunar
- Faraldsfræðileg könnun á kynsjúkdómum hjá íslenskum hestum
- Tíðni magasára í hrossum á Íslandi
- Endurgreiðsla sýningargjalda fyrir Litbrá frá Langhúsum
- Horseday, app og vefforrit til nota fyrir eigendur íslenskra hesta
- Kaup á myndefni frá kynbótasýningum 2020
- Könnun á erfðafræðilegum þáttum sem hafa áhrif á ganghæfni íslenskra hrossa
- Æviskeið – starfssaga Þorkels Bjarnasonar
2019 – Þrettán umsóknir – 12.000.000 til úthlutunar
- Könnun á erfðafræðilegum þáttum sem hafa áhrif á ganghæfni íslenskra hrossa
- Heltigreining hjá íslenska hestinum
- Íslenski hesturinn – þjóðarhesturinn. Undirbúningur og ritun bókar um íslenska
hrossarækt og hestamennsku - Áskorunartilraun: prófun á forvarnarbóluefni gegn sumarexemi í útfluttum hrossum
- Burðargeta íslenskra reiðhrossa
- AppFengur, áframhaldandi þróun
- Þróun ræktunarmarkmiðs í íslenskri hrossarækt – Framhaldsumsókn
2018 – Átta umsóknir – 13.263.370 til úthlutunar
- Hreyfingafræði íslenska hestsins: Ræktun, þjálfun, velferð.
- Appfengur, þróun á snjalltækjalausn fyrir WorldFeng
- Burðargeta íslenskra reiðhrossa
- Heltigreining hjá íslenska hestinum
- Bólusetning gegn sumarexemi í hrossum
- Erfðarannsókn á litförótta litnum
2017 – Sex umsóknir – 10.000.000 til úthlutunar
- Heilraðgreining á erfðaefni EHV-3 veiruræktar úr íslensku hrossi.
- Íslenski hesturinn – þjóðarhesturinn – efling og uppgangur við fullveldi. Sögusetur íslenska hestsins
- Íslenski hesturinn – þjóðarhesturinn – Útgáfa bókar um íslenska hrossarækt og hestamennsku.
- Landsmóts myndefni – kaup og vinnsla á myndefni fyrri Landsmóta og vistun í WorldFeng.
- Gagnabanki og upplýsingaveita um íslenska hrossaliti.
2016 – Sjö umsóknir – 11.976.000 til úthlutunar
- Virkni mismunandi méla og líffræðileg áhrif þeirra á munn hesta
- Rannsókn á veiruskitu í folöldum
- Hreyfingafræði íslenska hestsins: Ræktun, þjálfun, velferð
- Fjölgun erfðamarka í Worldfeng fyrir stóðhesta.
- Áhrif holdastigs íslenskra hesta á efnaskipti, þrek, jafnvægi í hreyfingum og endurheimt.
- Gagnabanki og upplýsingaveita um íslenska hrossaliti.
- Þýðing og prentun á Knapamerkjabókum
2015 – Átta umsóknir, 13.300.000 til úthlutunar
- Erfðarannsókn á drómasýki í íslenska hestinum
- Þróun á kynbótamati íslenska hestsins.
- Áhrif holdastigs íslenskra hesta á efnaskipti, þrek, jafnvægi í hreyfingum og endurheimt.
- Þýðing og prentun á Knapamerkjabókum
- WorldFengur – Snjalltækjavæðing á worldfengur.com
- Könnun á mati á eiginleikanum vilji og geðslag í kynbótadómi í íslenskri hrossarækt
2014 – Átta umsóknir, 1.600.000 til úthlutunar
- Þjálfunarlífeðlisfræðirannsóknir á íslenska hestinum
- Worldfengur – Skeiðgen með DNA, framþróun við DNA verkefni
2013 – Sjö umsóknir, 2.624.785 til úthlutunar
- Tannheilbrigði íslenskra keppnishesta
- Mat á föstum hrifum sýninga við kynbótadóma íslenska hestsins og samanburðarhæfni kynbótadóma í mismunandi aðildarlöndum FEIF
- Þjálfunarlífeðlisfræðirannsóknir á íslenska hestinum
2012 – Sjö umsóknir, 2.100.000 til úthlutunar
- Þjálfunarlífeðlisfræðirannsóknir á íslenska hestinum við Háskólann á Hólum
- Hlutlægt mat á hreyfingum og gangtegundum íslenska hestsins.