Þýskaland Julie Christiansen heldur á vit nýrra ævintýra í Þýskalandi

  • 29. september 2024
  • Fréttir

Julie Christansen og Stormur frá Hemlu I heimsmeistarar í T2 árið 2019 Ljósmynd: Sofie Lathinen Carlsson

Viðtal við Julie Christiansen

Hin þekkta hestakona Julie Christiansen hefur nú söðlað um og komið sér fyrir á búgarðinum Gestüt Brock í Münsterland í Þýskalandi, þangað flyst hún ásamt syni sínum Óskari.

“Ég fékk tilboð í búgarðinn minn í Danmörku og í framhaldinu fór ég að velta því fyrir mér hvað ég ætti að gera. Ég var í Þýskalandi fyrir 25 árum og hef í raun alltaf saknað Þýskalands. Ákvörðunin um að flytja þangað var því auðveld þegar ég hafði gert upp við mig að selja. Á búgarðinum eru þrjár reiðhallir tveir hringvellir auk skeiðbrautar. Þá eru reiðleiðir þar frábærar fjarri allri umferð ökutækja.” 

Julie hefur lengi verið á meðal fremstu knapa evrópu og nýtur vinsælda sem tamningakona og reiðkennari. Hún varð til að mynda heimsmeistari í slaktaumatölti árin 2019 og 2013 og heimsmeistari í fimmgangi árið 2015 auk fjölda annarra afreka.

Julie varð heimsmeistari í fimmgangi árið 2015 á Hug frá Flugumýri

“Ég mun halda áfram að kenna mikið víðsvegar um Evrópu auk þess að ég hef töluvert verið að kenna í gegnum internetið. Þá mun ég einnig vera með kennslu á búgarðinum í formi minni og stærri námskeiða. Þá mun ég að sjálfsögðu þjálfa og temja hross áfram og markmiðið er að eiga alltaf söluhross með gott geðslag bæði fyrir þá sem vilja kaupa sér úrvals reiðhesta upp í afreks hross í keppni. Þá eru möguleikar til keppni mun betri hér en í Danmörku, fleiri keppnisgreinar fyrir ung hross til dæmis og mun fleiri mót haldin.” Á heimasíðu Julie má fræðast meira um hana.

Eiðfaxi þakkar Julie fyrir spjallið og óskar henni velgengni í nýju ævintýri í Þýskalandi.

Óskar er efnilegur ungur knapi og fagnar hér sigri á danska meistaramótinu í sumar

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar