Olla í Nýjabæ fallin frá
Merkiskonan og hrossaræktandinn Ólöf Kolbrún Guðbrandsdóttir, Olla í Nýjabæ, lést í gær þann 7.október. Frá þessu greinir Guðbrandur sonur hennar á Facebook:
Með djúpri sorg í hjarta tilkynnum við að elsku Olla í Nýjabæ lést í dag, 7. október, á sjúkrahúsinu á Akranesi eftir stutt og erfið veikindi. Þrátt fyrir að veikindin hafi verið henni mjög þungbær barðist hún með ótrúlegri seiglu og styrk, eins og henni einni var lagið. Þó að líkaminn hafi gefið sig, var andi hennar ungur, og það var augljóst að hún var ekki tilbúin í þetta ferðalag.
Við fjölskyldan áttum dýrmæta stund saman í Nýjabæ og reynum nú að meðtaka þessa sársaukafullu daga. Það er þó ljóst að ekkert verður eins án hennar. Við sjáum hana fyrir okkur nú á ferð um sumarlandið með alla þá gæðinga sem hún ræktaði og líklegt að hún hafi byrjað á góðum skeiðspretti á honum Faxa.
Olla lagði einstakan metnað í hrossarækt sína og var henni mikið í mun að þessi arfur lifði áfram. Við munum fylgja hennar óskum og halda áfram að viðhalda þeirri ástríðu og áherslum sem hún stóð fyrir. Myndir og minningar um hana og hrossaræktina verða áfram deildar, í samræmi við hennar vilja, og sú ræktun mun halda áfram að blómstra í hennar anda.
Við sendum öllum sem henni voru kærir okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minningin um Ollu lifa áfram í hjörtum okkar allra með hlýju og kærleik.
Guðbrandur og fjölskylda
Hér fyrir neðan má sjá myndband um Ollu sem Félag hrossabænda lét útbúa árið 2020 þegar hún hlaut heiðursviðurkenningu þeirra.