Vel heppnuð uppskeruhátið Barna og unglinga í Spretti og Fáki
Á vef Hestamannafélagsins Spretts er fjallað um vel heppnaða uppskeruhátíð barna og unglinga í Spretti og Fáki. Hátíðin var haldin sameiginlega af þessum tveimur stóru félögum í Samskipahöllinni í Spretti.
Í fréttinni segir að Fjöldi barna og unglinga ásamt foreldrum og öðrum góðum gestum mættu og áttu skemmtilega kvöldstund saman. Börn og unglingar úr báðum félögum sáu um að skreyta salinn fyrir hátíðina, ásamt því að ákveða dagskrá kvöldsins og leiki.
Þórdís Gylfadóttir fyrir hönd Spretts og Vilfríður Fannberg fyrir hönd Fáks buðu gesti velkomna. Dagskrá kvöldsins hófst á því að Elva Rún Jónsdóttir formaður Barna- og unglingaráðs Spretts sagði frá helstu viðburðum og hittingum á liðnu ári.
Allir knapar sem tóku þátt á stórmóti, s.s. Landsmóti og/eða Íslandsmóti voru sérstaklega heiðraðir með viðurkenningaskjali og rós. Þrír Íslandsmeistararar voru heiðraðir. Kristín Rut Jónsdóttir, Spretti, varð Íslandsmeistari í slaktaumatölti barna á Roða frá Margrétarhofi. Elva Rún Jónsdóttir, Spretti, varð tvöfaldur Íslandsmeistari í unglingaflokki. Í fjórgangi á Hraunari frá Vorsabæ II og í tölti á Straum frá Hofsstöðum, Garðabæ. Lilja Rún Sigurjónsdóttir, Fáki, varð tvöfaldur Íslandsmeistari í unglingaflokki. Á Heiðu frá Skák í gæðingaskeiði og einnig varð hún samanlagður sigurvegari í unglingaflokki á Íslandsmóti.
Þrír knapar voru heiðraðir fyrir þátttöku sína á Norðurlandamóti í hestaíþróttum fyrir Íslands hönd sem fram fór í Danmörku í ágúst sl. Það voru þau Ragnar Snær Viðarsson Fáki, Elva Rún Jónsdóttir Spretti og Ragnar Bjarki Sveinbjörnsson Spretti. Og þeir pollar sem tóku þátt á Íslandsmóti í pollaflokki voru sérstaklega heiðruð.
Stigahæstu knapar, bæði stúlkur og drengir, í barna- og unglingaflokki voru verðlaunuð fyrir framúrskarandi árangur. Streymisveitan Alendis útvegaði félögunum vídjó af stigahæstu knöpunum sem skapaði skemmtilega stemmningu og er þeim þakkað fyrir það framlag.
Í barnaflokki hjá Spretti voru verðlaunuð fyrir framúrskarandi árangur þau Kristín Rut Jónsdóttir og Ragnar Dagur Jóhannsson.
Kristín Rut sigraði gæðingakeppni Spretts á Flugu frá Garðabæ sem tryggði þeim farmiða á Landsmót hestamanna þar sem þær enduðu í 4 sæti í feiknasterkum Barnaflokki á Landsmóti. Kristín Rut varð Íslandsmeistari í slaktaumatölti á Roða frá Margrétarhofi og sigraði einnig sýningagreinina gæðingatölt á Íslandsmóti á Flugu frá Garðabæ. Innilega til hamingju Kristín Rut með framúrskarandi árangur.
Ragnar Dagur varð í 2.sæti á gæðingamóti Spretts á hryssu sinni Alúð frá Lundum sem tryggði þeim farmiða á Landsmót þar sem þau áttu stórgóða sýningu í feiknasterkum barnaflokki. Ragnar sýndi fram á góðan árangur á hryssunni sinni Alúð frá Lundum á síðastliðnu keppnistímabili og sigraði m.a. Slaktaumatöltið á wr íþróttamóti Geysis og varð annar á Suðurlandsmóti í sömu grein. Innilega til hamingju Ragnar Dagur með framúrskarandi árangur.
Í unglingaflokki hjá Spretti voru verðlaunuð fyrir framúrskarandi árangur þau Elva Rún Jónsdóttir og Ragnar Bjarki Sveinbjörnsson.
Elva Rún sigraði allar töltkeppnir sem hún tók í á árinu á hesti sínum Straum frá Hofsstöðum, Garðabæ. Hún sigraði einnig gæðingakeppni Spretts og endaði í 4.sæti á Landsmót í sterkum Unglingaflokki á sama hesti, Straum. Elva Rún varð tvöfaldur Íslandsmeistari á árinu, í tölti á áðurnefndum Straum og í fjórgangi á Hraunari frá Vorsabæ II. Elva var valin í U-21 árs landslið Íslands og keppti fyrir Íslands Hönd í gæðingakeppni á Norðurlandamótinu sem haldið var í Danmörku. Innilega til hamingju Elva Rún með framúrskarandi árangur.
Ragnar Bjarki keppti á Aðgát frá Víðivöllum fremri á gæðingamóti Spretts og tryggði sér þátttökurétt á Landsmóti, þar sem hann var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í milliriðlum. Ragnar Bjarki sigraði bæði fimmgang og slaktaumatölt á WR íþróttamóti Sleipnis. Hann reið Gylli frá Oddgeirshólum í fimmgang og og Polku frá Tvennu í slaktaumatölti. Ragnar keppti í slaktaumatölti á Reykjavíkurmóti og Íslandsmóti og endaði í 3.sæti á báðum mótum á Polku. Ragnar var valinn í U-21 árs lanslið Íslands og keppti fyrir Íslands hönd í skeiðgreinum á Norðurlandamótinu sem haldið var í Danmörku. Innilega til hamingju Ragnar Bjarki með framúrskarandi árangur.