Stuð á árshátíð Jökuls
Árshátíð Jökuls var haldin laugardaginn 16. nóvember í félagsheimilinu Aratungu í Reykholti.
„Það var mikið fjör allt kvöldið og skemmtu allir sér vel. Maturinn frá Grillvagninum var frábær og heimatilbúin skemmtiatriði, pub quiz og Hljómsveitin Koppafeiti gerðu kvöldið eftirminnilegt,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
Veitt voru nokkur verðlaun en þau voru eftirfarandi:
Félagsmaður ársins
Félagsmaður ársins var Odda, Oddrún Ýr Sigurðardóttir Hún hefur starfarð fyrir félagið í 3 ár, bæði sem félagsmaður og framkvæmdastjóri. Hún hefur verið mikill burðarás í starfinu og hjálpað mikið til með óeigingjörnu starfi. Hún lét nýlega af störfum sem framkvæmdastjóri en mun halda áfram að starfa með okkur í félaginu á öðrum vettvangi.
Kynbótahross ársins
Ísbjörg frá Blesastöðum 1A
Ísbjörg er undan Spuna frá Vesturkoti og Blábjörgu frá Torfastöðum og er því einnig ættuð af félagssvæðinu. Hún er 7 vetra gömul og fór í glæsidóm bæði á kynbótasýningu vor og á Landsmótinu í Reykjavík í sumar.
Á vorsýningunni fékk hún 8.59 fyrir sköpulag og 8.74 fyrir hæfileika. Fyrir byggingu fékk hún 9 fyrir háls, herðar og bóga, hún fékk svo 8.5 fyrir alla aðra þætti byggingar fyrir utan 8 fyrir réttleika.
Fyrir hæfileika fékk hún 9 fyrir tölt, skeið, samstarfsvilja, fegurð í reið og hægt tölt.
Hún er ræktuð af Magnúsi Trausta Svavarssyni á Blesastöðum en er nú í eigu Anju Egger-Meier
Magnús Trausti komst ekki til að veita verðlaununum viðtöku en fékk þau veitt heima á Blesastöðum.
Íslands- og Landmótsmeistarar
Félagið átti einn Íslandsmeistara á þessu ári.
Þórey Þula Helgadóttir varð Íslandsmeistari í samanlögðum fjórgangsgreinum ungmenna á heimaræktuðu hryssunni Hröfnu frá Hvammi1. Þær lentu í 4. Sæti í fjórgangi og 7-8. Sæti í tölti. Frábær árangur á þessari 7 vetra gömlu meri.
Þórey er búin að sýna það og sanna að hún ætli sér langt í fremstu röð knapa landins. Það mátti einnig sjá á Landsmótinu í sumar í A-flokki gæðinga þar sem hún átti afbragðs sýningu á Kjalari frá Hvammi 1.
Knapi Ársins
Knapi ársins hjá Hestamannafélaginu Jökli er Þórarinn Ragnarsson. Hann hefur átt frábært tímabil þó sérstaklega í fimmgangi og skeiðgreinum. Með Herkúles frá Vesturkoti átti hann magnað tímabil í fimmgangi. Þeir urðu í 2. sæti á Reykjavíkurmeistarmóti, 2. sæti á Landsmóti og 2. sæti á Íslandsmóti. Einnig var árangurinn á Bínu frá Vatnsholti mjög eftirtektarverður í 150m skeiði. Þau urðu í 2. sæti á Landsmóti og 2. sæti á Íslandsmóti.
„Félagið getur verið mjög stolt af árangri okkar fremstu knapa og er það t.d. frábær árangur að eiga 3 knapa í Íslensku landsliðunum. Félagið óskar verðlaunahöfum innilega til hamingju með verðlaunin og sinn árangur,“ kemur jafnframt fram í fréttatilkynningu félagsins.