Pubquiz og kennslusýningar
Helgin 30. nóvember – 1. desember 2024 verður sannkölluð menntahelgi í reiðhöllinni í Víðidal.
Á laugardeginum munu A-landsliðknaparnir vera með kennslusýningar og á sunnudeginum verða tvær sýningar þar sem annarsvegar munu koma fram knapar í U21 landsliðinu og hinsvegar knapar í hæfileikamótun LH.
„Þetta er frábært tækifæri fyrir fróðleiksþyrsta hestamenn að skyggnast inn í aðferðafræði landsliðsknapanna okkar, fræðast um þjálfun þeirra með hesta sína og skyggnast inn í undirbúning þeirra í upphafi vetrar,“ segir í tilkynningu frá Landssambandi hestamannafélaga.
Nú er heimsmeistaramótsár framundan og íslenska landsliðið komið á fullt í sinn undirbúning og ætlar svo sannarlega ekki að láta sitt eftir liggja þegar á hólminn er komið.
Takið helgina frá, notið tækifærið og sækið ykkur fróðleik hjá knöpum á hæsta stigi reiðmennskunnar og styrkið landsliðið okkar til dáða inn í mikilvægt tímabil.
Hægt er að kaupa miða HÉR og við hurðina. Einnig verður viðburðurinn í beinni útsendingu á vef Eiðfaxa.
Föstudagskvöldið 29. nóv mun verður upphitun fyrir helgina, en þá mun fara fram PubQuiz í reiðhöllinni í Víðidal sem enginn hestamaður vill missa af.
Dagskráin verður sem hér segir:
Laugardagur
Kl 10:00
Ragnhildur Haraldsdóttir: Tenging taumhringsvinnu við form og gangtegundir.
Guðmunda Ellen Sigurðardóttir: Tenging sætisnotkunar og taums, samhæfing knapa og hests
Hinrik Bragason: Undirbúningur fyrir gæðingaskeið – samspil í gleði og vilja í verki.
Glódís Sigurðardóttir: Auka skrefastærð með formi og stillingu.
Hádegishlé. Í hléinu verður hægt að kaupa dýrindis jólamat, súpu og sælgæti í sjoppunni. Allur ágóði af veitingasölu rennur til landsliðsins.
Helga Una Björnsdóttir: Slaktaumatölt – undirbúningur, aðferðir, hestgerðir
Jóhanna Margrét Snorradóttir: Hraðabreytingar, samspil safnandi hvetjandi og hamlandi æfingar.
Teitur Árnason: Viðhalda gleði með fjölhæfni og léttleika.
Dagskrá lýkur um kl 15:15
Sunnudagur – frítt inn!
Kl 13:00
Hæfileikamótun LH
Hlé. Í hléinu verður hægt að kaupa nýbakaðar vöfflur, heitt kakó og ýmislegt annað góðgæti í sjoppunni.
U21 Landsliðið
Dagskrá lýkur um kl 16:00