Siggi Óli og Fjalladís á toppnum
Á heimasíðu FEIF er að finna alþjóðlega stöðulista ársins í ár byggða á einkunnagjöf í forkeppni alþjóðlegum mótum (WR). Þar eru tvær hæstu einkunnir/tími knapa og hests lagðar saman og meðaltal þeirra raðar þeim niður á stöðulista.
Á næsta ári er framundan Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Sviss og því áhugavert að skoða þessa stöðulista sem gefa fyrirheit um það hvers er að vænta á því móti. Ljóst er þó að við eigum ekki von á því að sjá öll þessi pör á því móti auk þess að fleiri knapar munu leggja meiri metnað og orku í næsta keppnistímabil með heimsmeistaramótið í huga.
Gæðingaskeið
Efstur á stöðulistanum í gæðingaskeiði er Sigurður Óli Kristinsson á Fjalladísi frá Fornusöndum, hann varð m.a. Norðurlandameistari í þessari grein í sumar, þar sem hann keppti fyrir hönd Danmerkur. Annar á stöðulistanum er hin þýska Laura Enderes á Fannari von der Elschenau. Þriðji er Landsmótssiguvegarinn í þessari grein Hinrik Bragason á Trú frá Árbakka og fjórði er Íslandsmeistarinn Jakob Svavar Sigurðsson á Erni frá Efri-Hrepp. Fimmti er svo Guðmundur Einarsson á Draumi från Tängmark, Guðmundur keppir fyrir hönd Svíþjóðar.
Ríkandi heimsmeistari í gæðingaskeiði er Elvar Þormarsson en hann keppti þá á Fjalladís sem Sigurður Óli keppir á nú. Líkur eru á því að alllir þessi knapar verði á meðal þátttakenda á næsta Heimsmeistaramóti. Þeir Hinrik og Jakob Svavar eru báði í landsliðshópi Íslands.
# | Knapi | Hestur | Einkunn |
1 | Sigurður Óli Kristinsson | Fjalladís frá Fornusöndum | 9,005 |
2 | Laura Enderes | Fannar von der Elschenau | 8,67 |
3 | Hinrik Bragason | Trú frá Árbakka | 8,585 |
4 | Jakob Svavar Sigurðsson | Ernir frá Efri-Hrepp | 8,5 |
5 | Guðmundur Einarsson | Draumur från Tängmark | 8,355 |