Unnið að sameiginlegri lausn
Fréttir tengdar hrossaskít og auknum kostnaði vegna losunar hans, í ákveðnum sveitarfélögum, hafa ekki farið framhjá mörgum. Morgunblaðið vakti athygli á málinu með umfjöllun í tölublaði sínu þann 4.janúar síðastliðinn, síðan þá hefur umræðan orðið ansi mikil og fréttaflutningur áberandi.
Í ljósi þess hafa tvö fjölmennustu hestamannafélögin á höfuðborgarsvæðinu, Sprettur og Fákur, ásamt Sorpu sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir vilja allra aðila til þess að leysa þess mál með farsælum hætti.
Hér að neðan má lesa yfirlýsinguna.
Í ljósi frétta af vandræðum við losun hrossataðs á höfuðborgarsvæðinu vilja forsvarsmenn hestamannafélaganna Fáks og Spretts ásamt Sorpu koma á framfæri að verið er að vinna sameiginlega að lausn á því vandamáli sem skapast hefur eftir að losunarstöðum var lokað af heilbrigðiseftirlitinu í haust.
Strax og losunarstöðum var lokað í október árið 2024 höfðu forsvarsmenn hestamannafélaganna samband við forsvarsmenn Sorpu og var fljótlega fundað varðandi þá verskrá sem þar er í gildi varðandi móttöku á taði. Vilji er hjá Sorpu til að endurskoða þá verðskrá.
Þá hafa þessir aðilar einnig horft til annarra lausna. Hrossatað er gott efni til uppgræðslu á gróðurvana land sem víða er að finna í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Halda má því til haga að Heiðmörkin, útivistarparadís höfuðborgarsvæðisins, er að miklu leyti grædd upp með búfjáráburði og þá aðallega hrossataðs af höfuðborgarsvæðinu.
Fyrirhugað er að funda á næstu dögum með öðrum hagsmunaaðilum að farsælli lausn.
Hestamannafélagið Fákur
Hestamannafélagið Sprettur
Sorpa