Árni Björn og Hanna Rún útnefnd íþróttafólk ársins
Á heimasíðu sveitarfélagsins Rangárþings ytra kemur fram að íþróttafólk í héraði hafi verið heiðrað laugardaginn 11. janúar. Þar kemur einnig fram að fjöldi fólks hafi verið mætt til að fagna með sínu fólki og að kvenfélagið Unnur hafi boðið upp á ekta heimalagað kvenfélagskaffi. Það er Heilsu-, íþrótta og tómstundanefnd Rangárþings ytra sem kallar eftir tilnefningum og sér um að úthluta viðurkenningum.
Alls voru ellefu hestamenn heiðraðir á samkomunni af þeim 15 íþróttamönnum sem hlutu viðurkenningu. En það voru í stafrófsröð: Árni Björn Pálsson, Dagur Sigurðarson, Elísabet Líf Sigvaldadóttir, Gústaf Ásgeir Hinriksson, Hanna Rún Ingibergsdóttir, Herdís Björg Jóhannsdóttir, Hinrik Bragason, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, Jón Ársæll Bergmenn, Lilja Dögg Ágústdóttir og Sara Sigurbjörnsdóttir.
Íþróttakona Rangárþings ytra er Hanna Rún Ingibergsdóttir. Í texta frá Rangárþingi ytra segir: Hún hlaut titilinn „Gæðingaknapi Geysis“ hjá félaginu fyrir árið 2024. Árangur hennar á keppnisbrautinni var eftirtektarverður þar sem hún kom fram með gríðarlegan fjölda hrossa en það sem stóð hæst var án nokkurs vafa 3. sæti í A-flokki á Landsmóti hestamanna á hestinum Sirkus frá Garðshorni á Þelamörk. Hanna Rún hefur einnig tekið virkan þátt í reiðkennslu hjá félaginu við virkilega góðan orðstír og er hún því skýrt dæmi um fyrirmynd innan sem utan vallar. Hanna Rún tók virkan þátt í keppni á árinu 2024 með góðum árangri í nánast öllum greinum hestaíþróttarinnar. Hanna Rún var valin í A-landslið Íslands í hestaíþróttum fyrir komandi tímabil.
Íþróttakarl Rangárþing ytra er Árni Björn Pálsson. Í texta frá hátíðinni segir:
Hann er fjölhæfur afreksknapi og var árangur hans á árinu 2024 ótrúlegur. Hæst ber að nefna sigur í A-flokki gæðinga á Landsmóti þar sem hann og Álfamær áttu frábærar sýningar en þau eru einnig í þriðja sæti á stöðulista í gæðingaskeiði. Átti Árni Björn einnig eftirminnilegar sýningar á Seðli frá Árbæ í A flokki. Árni Björn er Íslandsmeistari í tölti á Kastaníu frá Kvistum, hlutu þau silfurverðlaun á Landsmóti í sömu grein og eru efst á WR-listanum í þessari grein í ár. Hann náði góðum árangri á skeiðbrautinni á hestum sínum Ögra frá Horni og Þokka frá Varmalandi. Árangur Árna var ekki einungis á keppnisvellinum heldur stóð hann sig vel á kynbótabrautinni. Hann sýndi 78 hross í kynbótadómi í 106 sýningum með frábærum árangri og átti margar eftirminnilegar sýningar á árinu. Árni Björn Pálsson er einstakur afreksknapi, sönn fyrirmynd fyrir elju sína, jákvæðni og fagmennsku í hvívetna og hann hlaut nafnbótina Knapi ársins 2024 á uppskeruhátíð Landsambands hestamannafélaga og deildar hrossabænda inn BÍ.
Heildarlisti yfir veittar viðurkenningar:
Árni Björn Pálsson – Hestar
Dagur Sigurðarson- Hestar
Elísabet Líf Sigvaldadóttir – Hestar
Guðný Lilja Pálmadóttir – Borðtennis
Gústaf Ásgeir Hinriksson – Hestar
Hanna Rún Ingibergsdóttir – Hestar
Helga Fjóla Erlendsdóttir – Frjálsar
Herdís Björg Jóhannsdóttir – Hestar
Hinrik Bragason – Hestar
Jóhanna Margrét Snorradóttir – Hestar
Jón Ársæll Bergmann – Hestar
Julia Sakowicz – Taekwondo
Lilja Dögg Ágústsdóttir – Hestar
Sara Sigurbjörnsdóttir – Hestar
Þorgeir Óli Eiríksson – Borðtennis
Lið Laugalandsskóla – Skólahreysti framúrskarandi árangur.
Therese Sundberg – Framúrskarandi störf
Guðmundur Jónasson – Framúrskarandi störf