Sýnir Eiðfaxa safnið sitt gestum og gangandi

  • 18. janúar 2025
  • Fréttir

Dagmar stolt við glerskápinn sem sýnir Eiðfaxa safnið hennar

Margir af lesendum Eiðfaxa kannast við það að vera smitaðir af hinni svokölluðu “hestabakteríu”. Um er að ræða yndislega bakteríu sem leggst bæði á unga sem aldna og fylgir fólki oftast í gegnum lífið. Dagmar Daníelsdóttir hefur ekki langt að sækja það að vera dolfallin hestastelpa.

Dagmar er í 3.bekk í Grunnskólanum á Hellu. Hún er í Hestamannafélaginu Geysi, æfir hesta-fimleika, fer á reiðnámskeið og allir hennar dagar snúast um að hugsa um hestana sína og æfa sig á hestbaki. Hún safnar Eiðfaxa blöðum, fer aldrei í skólann nema með að minnsta kosti eina Eiðfaxabók með sér í skólatöskunni og gluggar í Stóðhestabók Eiðfaxa á hverjum degi.

Henni gafst frábært tækifæri til þess að sýna öðrum Eiðfaxa safnið sitt í Bókasafninu á Hellu. En þar er verkefni í gangi sem kallast safnari vikunnar og gengur þannig fyrir sig að safnarinn setur upp sýningu í glerskáp bókasafnins, sem er svo til sýnis þar í vikutíma.

Skemmtilegt framtak hjá Bókasafninu á Hellu og er safnið hennar Dagmarar stórglæsilegt!

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar