Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum Ráslistinn klár fyrir slaktaumatöltið

  • 4. febrúar 2025
  • Fréttir

Glódís Rún Sigurðardóttir og Breki frá Austurási sigurvegarar í slaktaumatöltinu í fyrra Mynd: Carolin Giese, Meistaradeild í hestaíþróttum

Ráslistinn er klár fyrir slaktaumatöltið á fimmtudaginn í Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum. 

Glódís Rún Sigurðardóttir vann þessa grein í fyrra en hún mætir með annan hest í ár hann Ottesen frá Ljósafossi. Þetta er ekki frumraun þeirra í slaktaumatölti en þau keppt nokkrum sinnum í fyrra með ágætis árangri.

Það eru mörg sterk pör á ráslistanum en fyrst er hægt að nefna Íslandsmeistarana í greininni, Jakob Svavar Sigurðsson og Hrefnu frá Fákshólum, en þau munu keppa fyrir lið Hjarðartúns. Ásmundur Ernir Snorrason og Hlökk frá Strandarhöfði hafa verið afar farsæl í þessari grein og margir sem eflaust spá þeim í efstu sætin. Gústaf Ásgeir Hinriksson mætir með Draum frá Feti en Draumur og þáverandi knapi hans, Ólafur Andri Guðmundsson, voru í A úrslitum í þessari grein á Íslandsmótinu í fyrra.

Það bíða margir eflaust spenntir eftir að sjá Íslandsmeistarann og tvöfalda Landsmótssigurvegarann í skeiði, Kastor frá Garðshorni, í frumraun sinni í slaktaumatölti með knapa sínum Konráði Val Sveinssyni.

Eyrún Ýr Pálsdóttir og Drangur frá Steinnesi vöktu verðskuldaða athygli í fjórgangnum síðast þar sem þau enduðu í þriðja sæti og verður gaman að sjá þau spreyta sig í þessari grein. Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir mætir með Flóvent frá Breiðstöðum en þau unnu fjórganginn og Aðalheiður stendur efst í einstaklingskeppninni. Þau eru þaulreynt par í þessari grein, unnu hana árið 2023 og voru í A úrslitum í fyrra.

Eins og áður hefst keppni stundvíslega kl. 19:00 í HorseDay höllinni á Ingólfshvoli. HRINGDU býður frítt í stúkuna, þannig að áhorfendur geta tryggt sér sæti og upplifað keppnina í einstakri stemningu á staðnum. Fyrir þá sem vilja gera kvöldið enn betra verður Veisluþjónusta Suðurlands með glæsilegt hlaðborð á staðnum, og gestir sem panta fyrir fram fá frátekið sæti á besta stað í stúkunni. Pantanir fara fram á Dineout.is. Húsið opnar klukkan 17:00

Fyrir þá sem komast ekki í höllina verður keppnin sýnd í beinni útsendingu á www.eidfaxitv.is þar sem hægt verður að fylgjast með keppninni ásamt áhugaverðum viðtölum þar sem kappkostað verður að senda stemninguna úr höllinni heim í stofu!

Ráslisti – Slaktaumatölt

Nr. Knapi Hestur Faðir Móðir Lið
1 Jóhanna Margrét Snorradóttir Gýmir frá Skúfslæk Hrannar frá Flugumýri II Gríma frá Efri-Fitjum Hestvit / Árbakki
2 Arnhildur Helgadóttir Frosti frá Hjarðartúni Skýr frá Skálakoti Hrund frá Ragnheiðarstöðum Hjarðartún
3 Sara Sigurbjörnsdóttir Hátíð frá Garðsá Ómur frá Kvistum Snæja frá Garðsá Ganghestar / Margrétarhof
4 Védís Huld Sigurðardóttir Skorri frá Skriðulandi Grunur frá Oddhóli Freysting frá Akureyri Sumarliðabær
5 Bylgja Gauksdóttir Askja frá Garðabæ Bikar frá Syðri-Reykjum Grýta frá Garðabæ Fet / Pula
6 Eyrún Ýr Pálsdóttir Drangur frá Steinnesi Draupnir frá Stuðlum Ólga frá Steinnesi Top Reiter
7 Ásmundur Ernir Snorrason Hlökk frá Strandarhöfði Loki frá Selfossi Sunna frá Sumarliðabæ 2 Hrímnir / Hest.is
8 Þorgeir Ólafsson Náttrún frá Þjóðólfshaga 1 Sveinn-Hervar frá Þúfu í Landeyjum Kjarnorka frá Kálfholti Sumarliðabær
9 Sigurður Vignir Matthíasson Kostur frá Þúfu í Landeyjum Kappi frá Kommu Þota frá Þúfu í Landeyjum Ganghestar / Margrétarhof
10 Jóhann Kristinn Ragnarsson Kjarnveig frá Dalsholti Konsert frá Hofi Gleði frá Dalsholti Fet / Pula
11 Konráð Valur Sveinsson Kastor frá Garðshorni á Þelamörk Kiljan frá Steinnesi Vissa frá Lambanesi Top Reiter
12 Flosi Ólafsson Sunna frá Haukagili Hvítársíðu Sólon frá Skáney Katla frá Steinnesi Hrímnir / Hest.is
13 Ástríður Magnúsdóttir Steinar frá Stíghúsi Hrannar frá Flugumýri II Álöf frá Ketilsstöðum Uppboðssæti
14 Helga Una Björnsdóttir Ósk frá Stað Skýr frá Skálakoti Ófelía frá Holtsmúla 1 Hjarðartún
15 Gústaf Ásgeir Hinriksson Draumur frá Feti Arion frá Eystra-Fróðholti Jónína frá Feti Hestvit / Árbakki
16 Hanne Oustad Smidesang Tónn frá Hjarðartúni Dagur frá Hjarðartúni Harpa frá Hjarðartúni Fet / Pula
17 Jón Ársæll Bergmann Díana frá Bakkakoti Frami frá Ketilsstöðum Brynja frá Bakkakoti Sumarliðabær
18 Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir Flóvent frá Breiðstöðum Pan frá Breiðstöðum Dúkka frá Úlfsstöðum Ganghestar / Margrétarhof
19 Glódís Rún Sigurðardóttir Ottesen frá Ljósafossi Auður frá Lundum II Sunna-Rós frá Úlfljótsvatni Hestvit / Árbakki
20 Viðar Ingólfsson Vonandi frá Halakoti Arion frá Eystra-Fróðholti Álfarún frá Halakoti Hrímnir / Hest.is
21 Teitur Árnason Hrafney frá Hvoli Forkur frá Breiðabólsstað Stjarna frá Stóra-Hofi Top Reiter
22 Jakob Svavar Sigurðsson Hrefna frá Fákshólum Hraunar frá Hrosshaga Gloría frá Skúfslæk Hjarðartún

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar