Útflutningur á sæði – nýr kafli í íslenskri hrossarækt?

Samræður um mögulegan útflutning á sæði úr íslenskum stóðhestum hefur verið áberandi á kaffistofum hestamanna síðustu misseri. Ástæðan er nýopnuð einangrunar- og sæðingastöð á Efri-Holtum í Vestur-Eyjafjallahreppi, sem hjónin Guðmundur Viðarsson og Jóhanna Þórhallsdóttir standa að. Um er að ræða frumkvöðlastarfsemi sem gæti opnað nýjar dyr við ræktun íslenska hestsins.
Fyrst var fjallað um verkefnið í Bændablaðinu árið 2023 og nýverið birtist viðtal við Guðmund hér á vefsíðu Eiðfaxa. Þar segir hann m.a.:
„Við erum núna á lokametrunum og 1. apríl mæta fyrstu hestar á stöðina. Ef allt fer eftir áætlun verðum við tilbúin til útflutnings á fersku og frosnu sæði eftir 1. maí.“
Verkefnið hefur einnig vakið athygli utan landsteinanna. Sænski miðillinn Ridsport greindi nýverið frá málinu, þar sem fram kemur að þeir stóðhestar sem verða í boði á þessu fyrsta starfsári séu Skýr frá Skálakoti, Þráinn frá Flagbjarnarholti og Ellert frá Baldurshaga.
Framtíðartækifæri eða ógn við íslenskan markað?
Ýmsir hestamenn hafa haft samband við Eiðfaxa og lýst þeirri skoðun að umræða um málið hafi ekki verið nægilega mikil á opinberum vettvangi og af forsvarsmönnum greinarinnar, nú áður en útflutningur hefst. Málið heyrir undir Búgreinadeild hrossabænda innan Bændasamtaka Íslands, en á heimasíðu deildarinnar segir m.a. að eitt af meginhlutverkum hennar sé:
„Að vinna að sölumálum fyrir reiðhesta og kynbótahross, innanlands og erlendis […] með það að markmiði að skapa aukin verðmæti, hrossaeigendum og þjóðinni til hagsældar.“
Þegar litið er á málið í stærra samhengi telja margir að útflutningur á sæði geti haft jákvæð áhrif á íslenska hrossarækt. Betra aðgengi að erfðaefni, óháð búsetu ræktenda, gæti stuðlað að auknum erfðaframförum innan stofnsins. Slíkt gæti einnig aukið áhuga erlendra ræktenda og styrkt samkeppnisstöðu íslenska hestsins gagnvart öðrum kynjum. Flæði erfðaefnis á milli landa er vel þekkt í öðrum hestakynjum og hefur víða leitt til jákvæðrar þróunar – þó með þeim áskorunum að skyldleiki innan stofna getur aukist.
Á hinn bóginn hafa margir ræktendur áhyggjur af áhrifum slíkrar þróunar á markaðsstöðu Íslands. Helstu áhyggjurnar beinast að framtíðarsölu hrossa og annarri tengdri starfsemi innanlands, svo sem hryssuhaldi fyrir erlenda aðila og tekjum af folatollum. Ef aðgangur að sæði verður víðtækur, gæti eftirspurn eftir útflutningi hesta frá landinu minnkað.
Málið minnir nú að margra mati á og svipar til þess sem átti sér stað á níunda og tíunda áratug síðustu aldar, þá stóð mikil umræða um útflutning hátt dæmdra stóðhesta og ræktunarhryssna. Líkt og nú voru skiptar skoðanir og málið umdeilt en ólíkt því sem nú er að þá skiptust menn á skoðunum á yfirborðinu og komu sínum hugsjónum á framfæri.
Hvort sem fólk er fylgjandi eða á móti útflutningi á sæði, þá er ljóst að umræðuna þarf að taka og hún fari fram á faglegum og upplýstum forsendum, þar sem teknir eru til skoðunar bæði kostir og gallar, fyrir ræktendur, markaðinn og sjálfan íslenska hestinn.
Hægt er að taka þátt í umræðunni með því að kjósa í spurningu vikunnar á forsíðu Eiðfaxa. Athugið að ef greinin er skoðuð í síma þarf að fletta örlítið niður til að spurningin birtist.