Fimmtíu ár frá stofnun Félags hrossabænda

Þann 19.apríl árið 1975 var Félag hrossabænda stofnað og eru því í dag 50 ár frá stofnun þess. Í upphafi nefndist félagið Hagsmunafélag hrossabænda en nafninu var fljótlega breytt í Félag hrossabænda. Árið 2022 gekk félagið í Bændasamtök Íslands og er núna ein af búgreinadeildum þess. Þá var Hrossaræktarsamband Íslands, sem var stofnað þann 24.apríl árið 1971, sameinað við Félag hrossabænda árið 1997.
Í grein Þjóðviljans frá árinu 1987 segir m.a.: Það er opið öllum sem stunda vilja hrossarækt og markmiðið er að „móta sölumarkað fyrir hross og hrossaafurðir“ eins og segir í lögum félagsins. Megin ástæðan fyrir stofnun félagsins var sú að hrossabændur töldu að hagsmunamálum þeirra væri ekki nægur gaumur gefinn og útflutningur reiðhrossa því á undanhaldi.“
Tilgangur félagsins í dag samkvæmt heimasíðu þess.
- Að vera málsvari aðildarfélaga og einstakra félagsmanna og koma fram fyrir þeirra hönd.
- Að vinna ötullega að ræktun íslenska hestsins sem reiðhests, með kynbótum, skýrsluhaldi og mótun ræktunarstefnu í samvinnu við Bændasamtök Íslands, þar með talin þátttaka í fagráði.
- Að glæða áhuga fyrir hrossarækt og hestamennsku með öflugu fræðslu- og kynningarstarfi.
- Að vinna í samvinnu við önnur félög að góðu uppeldi, aðbúnaði og tamningu hrossa.
- Að stuðla að hóflegri landnýtingu og umhverfisvernd.
- Að vinna að sölumálum fyrir reiðhesta og kynbótahross, innanlands og erlendis og hafa um það samvinnu við aðra aðila, með það að markmiði að skapa aukin verðmæti, hrossaeigendum og þjóðinni til hagsældar.
- Að vinna að sölumálum fyrir hrossaafurðir, jafnt á innlendum, sem erlendum mörkuðum, með það að markmiði að auka verðmæti afurðanna.
Eftir því sem greinarhöfundur kemst næst í heimildasöfnun sinni hafa sjö aðilar sinnt formennsku í félaginu frá stofnun þess. Lista yfir þá aðila er að finna hér neðst í greininni. Fjölmargir hafa komið að stjórnarsetu og starfsemi félagsins frá upphafi og þar með lagt sitt á vogarskálarnar til að tryggja og móta stöðu hrossabænda í landinu. Þá er vert að nefna hlut Halldórs Gunnarssonar, sem jafnan er kenndur við Holt undir Eyjafjöllum, í framgangi félagsins. Hann var framkvæmdarstjóri þess og formaður markaðsnefndar um langt árabil og vann hann ötullega að baráttumálum félagsins og þar með hagsmunamálum hrossabænda.
Formenn félagsins frá upphafi
Sigurður Haraldsson 1975-1978
Sigurður J. Líndal 1978-1984
Einar E. Gíslason 1984-1993
Bergur Pálsson 1993-1999
Kristinn Guðnason 1999-2013
Sveinn Steinarsson 2013-2023
Nanna Jónsdóttir 2023 –