Landbúnaðarháskóli Íslands Eyjalín Harpa sópaði að sér verðlaunum á Skeifudaginn

  • 26. apríl 2025
  • Fréttir

Að þessu sinni hlaut Eyjalín Harpa Eyjólfsdóttir Morgunblaðsskeifuna, Eiðfaxabikar, Ásetu og reiðmennskuverðlaun FT og Gunnarsbikar.

Skeifudagurinn fór fram í blíðskapar veðri Sumardaginn fyrsta í hestamiðstöð skólans að Mið-Fossum og á Hvanneyri.

Dagurinn hófst á fánareið nemenda undir stjórn Guðbjarts Þórs Stefánssonar reiðkennara og opnunarávarpi rektors, Ragnheiðar I. Þórarinsdóttur. Skeifudagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur síðan 1957 og dregur nafn sitt af Morgunblaðsskeifunni en hana hlýtur sá nemandi í búfræði sem náð hefur bestum árangri í frumtamningarprófi og í áfanganum Reiðmennska III. Þá veitir Eiðfaxi bikar fyrir bestu einkunn fyrir bóklegt ná í áföngunum Reiðmennska I-III. Félag tamningamanna veitir verðlaunaskjöld fyrir ásetu og reiðmennsku og hlýtur þau sá nemandi sem best þykir sitja hest sinn með fallegri ásetu og stjórnun. Silvía Sigurbjörnsdóttir formaður FT veitti þau verðlaun. Einnig eru veitt Framfaraverðlaun Reynis sem veitt eru þeim nemanda sem sýnt hefur hvað mestan áhuga, ástundun og tekið sem mestum framförum í áföngunum Reiðmennska I-III og eru gjöf Hestamannafélagsins Grana til minningar um Reyni Aðalsteinsson. Þá er einnig keppt um Gunnarsbikarinn sem gefinn er af Bændasamtökum Íslands til minningar um Gunnar Bjarnason og er veittur þeim nemanda sem hlýtur hæstu einkunn í fjórgangi og fóru úrslitin fram á Skeifudaginn. Í Gunnarsbikar taka einnig þátt nemendur í hestafræði á háskólastigi.

Guðbjartur Þór til vinstri ásamt nemendum sem tóku þátt í Skeifudeginum þá Laufey Ósk Grímsdóttir, Ingiberg Daði Kjartansson, Einar Ágúst Ingvarsson, Eyjalín Harpa Eyjólfsdóttir, Kim Edman, Saga Björk Jónsdóttir, Melkorka Gunnarsdóttir og Linda Rún Pétursdóttir reiðkennara

 

Að þessu sinni hlaut Eyjalín Harpa Eyjólfsdóttir Morgunblaðsskeifuna, Eiðfaxabikar, Ásetu og reiðmennskuverðlaun FT og Gunnarsbikar. Einar Ágúst Ingvarsson hlaut Framfaraverðlaun Reynis.

Að lokinni dagskrá í reiðhöllinni að Mið-Fossum var haldið á Hvanneyri þar sem nemendur stóðu fyrir kaffihlaðborði og dregið var í stóðhestahappadrætti.

Að þessu sinni kláruðu 4 nemendur í búfræði og 3 í hestafræði. Þau Einar Ágúst Ingvarsson, Eyjalín Harpa Eyjólfsdóttir, Ingiberg Daði Kjartansson og Laufey Ósk Grímsdóttir í búfræði og þær Maria Kim Desirée Edman, Melkorka Gunnarsdóttir og Saga Björk Jónsdóttir í hestafræði Bs.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar