Umræðuþátturinn Hestaþing

F.v. Telma L. Tómasson þáttarstjórnandi, Guðmundur J. Viðarsson Sigríður Björnsdóttir og Sigurður V. Matthíasson
Tökur á fyrsta þættinum af Hestaþingi fóru fram í gær í höfuðstöðvum Eiðfaxa. Markmiðið með þessum þáttum er að búa til vettvang til umræðna um hin ýmsu málefni er tengjast hestamennsku og brenna á hestamönnum hverju sinni. Það er okkur hjá Eiðfaxa mikill heiður að hafa fengið hinn reynda fjölmiðla- og hestamann, Telmu L. Tómasdóttur, til liðs við okkur til að stýra þessum þáttum.
Umræðuefni fyrsta þáttarins er málefni sem nú brennur á hrossaræktendum á Íslandi og varðar útflutning á sæði. Viðmælendur Telmu í þættinum voru þau Guðmundur J. Viðarsson hrossaræktandi og forstöðumaður sæðingastöðvar í Skálakoti, Sigríður Björnsdóttir sérgreinadýralæknir hjá MAST og Sigurður V. Matthíasson hrossaræktandi og knapi.
Fjörlegar og málefnalegar umræður fóru fram þar sem skipst var á skoðunum um þessa nýjung við ræktun íslenska hestsins.
Þátturinn verður frumsýndur á EiðfaxaTV laugardaginn næstkomandi þann 10.maí klukkan 20:00 og í framhaldinu aðgengilegur áskrifendum.