Aðal forréttindin eru að hafa kynnst þessum hrossum

Árni Björn Pálsson sýndi Sólfaxa frá Herríðarhóli í 10 fyrir tölt og hægt tölt. Mynd: Nicki Pfau
Eins og sagt var frá á Eiðfaxa hlaut Miðill frá Hrafnagili 10 fyrir brokk nú í morgun á vorsýningu á Rangárbökkum. Sýnandi hans var Árni Björn Pálsson sem náði um leið þeim merka áfanga að hafa sýnt hross í einkunnina 10 fyrir allar gangtegundir sem dæmdar eru á íslenskum hrossum.
„Þetta er eitthvað sem maður er búinn að hafa bakvið eyrað síðast liðin ár. Búin að ríða nokkrum sinnum í 10 fyrir tölt og skeið en ekki búinn að ná þessu á brokki. Aðal forréttindin eru að hafa kynnst þessum hrossum sem gátu gert þetta og er mér dýrmæt reynsla,“ segir Árni Björn Pálsson aðspurður út í afrekið.
Sýndi fyrst í tíu fyrir skeið
Fyrst sýndi Árni Björn í tíu fyrir skeið en það var á Þingey frá Torfunesi árið 2014 en síðan þá hefur Árni Björn sýnt fjórtán sinnum í tíu fyrir einstakan eiginleika í hæfileikadómi.
„Þetta var á Landsmóti á Hellu. Ég man allar þessar sýningar. Þetta er búið að vera einstök upplifun að upplifa þetta allt og þú mannst eftir hverri ferð. Þetta er auðvitað mismunandi upplifanir en það er öðruvísi að sýna í tíu á Landsmóti með 10.000 manns í brekkunni eða á héraðssýningu og enginn í brekkunni.“
Tía í dag er endilega ekki tía eftir tíu ár
Oftast hefur Árni Björn sýnt í 1o fyrir skeið, eins og áður sagði fyrst hana Þingeyju frá Torfunesi árið 2014, síðan Örvar frá Gljúfri árið 2015, Roða frá Lyngholti árið 2016 og Álfamey frá Prestsbæ árið 2022. En hér fyrir neðan er hægt að sjá þau hross sem Árni Björn hefur sýnt sem hlotið hafa 10 fyrir gangtegund í hæfileikadómi.
„Tíu er auðvitað alltaf krítísk einkunn. Fólk hefur skoðun á því hvort hestarnir eigi einkunnina skilið eða ekki. Það breytir því ekki að það er alltaf gaman að ná þessu. Skilgreining á tíu í einkunn er kannski eins og einn dómari sagði eitt sinn; tíu er einfaldlega það besta sem þekkist í stofninum á þeim tímapunkti. Síðan erum við bara að þróa kerfið og rækta betri hesta og stefna upp á við. Tíu í dag þarf ekki endilega að vera tíu eftir tíu ár og metin eru til þess að slá þau.“
Hestur | Eiginleiki | Ár |
Þingey frá Torfunesi | Skeið | 2014 |
Örvar frá Gljúfri | Skeið | 2015 |
Roði frá Lyngholti | Skeið | 2016 |
Ljósvaki frá Valstrýtu | Stökk | 2016 |
Ljósvaki frá Valstrýtu | Tölt | 2016 |
Kolka Breiðholti í Flóa | Fet | 2018 |
Fenrir frá Feti | Hæst stökk | 2018 |
Ljúfur frá Torfunesi | Tölt | 2019 |
Hátíð frá Hemlu II | Hægt tölt | 2020 |
Sólfaxi Herríðarhóli | Hægt tölt | 2022 |
Álfamær frá Prestsbæ | Skeið | 2022 |
Sólfaxi Herríðarhóli | Tölt | 2022 |
Miðill frá Hrafnagili | Brokk | 2025 |