Máni ekki lengur í landsliði Svía

Máni og Gljátoppur fagna heimsmeistaratitli á HM 2023. Ljósmynd: Bert Collet
Mána Hilmarssyni, ríkjandi heimsmeistara í slaktaumatölti, hefur verið vísað úr sænska landsliðinu og verður því ekki á meðal þátttakenda á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins. Í yfirlýsingu frá SIF kemur fram að brottvikning hans úr liðinu byggist á því að einn af keppnishestum Mána hafi ekki staðist lyfjapróf á sænska meistaramótinu.
Samkvæmt heimildum Eiðfaxa var sá hestur sem um ræðir ekki Gljátoppur frá Miðhrauni, sem Máni stefndi með á HM, heldur annar af keppnishestum hans.
Í samtali við blaðamann Eiðfaxa í kjölfar fréttanna hafði Máni þetta að segja: „Þetta er þungt högg og mér líður ömurlega yfir þessu. Fyrst og fremst harma ég mjög að þetta hafi gerst og að ég hafi ekki staldrað við og hugað betur að því hvað væri í lyfi sem ég notaði gegn múkki, sem einn af mínum keppnishestum hefur verið að glíma við, en það er alltaf hægt að vera vitur eftir á. Gljátoppur var að komast í sitt allra besta stand og ég hlakkaði mjög til að vera á meðal keppenda á heimsmeistaramótinu, þetta er því þungur biti að kyngja.“
Á þessu er því ljóst að Máni gefst ekki tækifæri til að verja titil sinn á komandi Heimsmeistaramóti.