Söguleg „brennureið“ á Rangárbakka

Laugardaginn 23. ágúst verður efnt til sögulegrar hestaferðar um Njáluslóðir og er stefnan sett á að í henni taki 99 reiðmenn og nákvæmlega helmingi fleiri hestar þátt. Riðin er á álíkum slóðum og fylgisveinar Flosa Þórðarsonar fóru þegar þeir báru eld að Bergþórshvoli til að bana Njálssonum og Kára Sölmundarsyni, sem reyndar komst undan og hefndi vina sinna rækilega.
Hermann Árnason hefur veg og vanda af skipulagningu ferðarinnar og segist sannfærður um að færri muni komast að en vilja.
Ferðin er hluti af fjögurra daga Njáluvöku þar sem þessu mikla bókmenntaafreki verða gerð skil með ýmsum hætti. Reiðinni lýkur með skrautreið skikkjuklæddra þátttakenda inn á Rangárbakka, vonandi að viðstöddum fjölda áhorfenda. Þar verður kveikt í myndarlegum bálkesti og brugðið á leik með tónlistaratriðum, brekkusöng, aflraunum, leikþáttum og ýmsu fleiru.
Áætlað er að lagt verði af stað um miðjan dag frá Velli og riðið á Rangárbakka þar sem Njálsbrennan verður sviðsett. Gert er ráð fyrir að eins og í brennureiðinni forðum hafi allir þátttakendur tvo til reiðar og er reiðleiðin u.þ.b. 20 kílómetrar.
Leiðin er bæði fjölbreytt og falleg og er m.a. farið á vaði yfir Eystri-Rangá. Þátttökugjald er 20.000 krónur og innifelur m.a. mat í upphafi ferðar og hressingu í áningum, skikkju fyrir skrautreiðina og leiðsögn með fróðleik og fræðslu um þessa sögufrægu reiðleið. Ítarleg lýsing á ferðatilhögun verður send þátttakendum þegar nær dregur.
Nánari upplýsingar verður að finna á fésbókarsíðu Njálufélagsins, facebook.com/njalufelagid og eru hestamenn hvattir til þess að slást með í för og verða um leið hluti af hestaferð sem vafalaust verður minnst með margvíslegum hætti á komandi árum. Enda þótt líkt sé eftir flokki Flosa eru konur velkomnar í hópinn en það fer hins vegar ekki vel á því að börn séu sett í
spor og hlutverk brennuvarganna.
Áhugasamir eru hvattir til þess að skrá sig tímanlega með því að smella hér
Fyrirspurnir sendist í gegnum Facebook síðu Njálufélagsins eða á njaluhatid@gmail.com
UPP MEÐ NJÁLU!
