Sekúndubrot munu ráða úrslitum

Helga og Nóri Ljósmynd: Bert Collet
Margir af hraðskreiðustu skeiðhestum heims mætast á heimsmeistaramótinu í 100 metra skeiði. Hér eru nokkur af þeim pörum sem líklegust eru til að hreppa titilin.
Helga Hochstöger og Nóri von Oed eru ríkjandi heimsmeistarar í þessari grein og þær eiga einnig besta tíma ársins í greininni af þeim pörum sem keppa á HM en sá tími er 7,29 sekúndur. Nóri er sautján vetra gamall undan Nasa vom Auenthal og Máríu frá Miklaholtshelli. Ræktandi er Steffi Plattner en eigandi er Helga Hochstöger
Nathalie Fischer og Ímnir fra Egeskov keppa fyrir hönd Dana. Ímnir er undan Gauki frá Innri-Skeljabrekku og Glóru frá Hofi besti tími þeirra í 100 metra skeið er 7,30 sekúndur.
Sigursteinn Sumarliðason og Krókus frá Dalbæ þekkjast vel og hafa náð frábærum tímum í 100 metra skeiði. Krókus er nú 17. vetra gamall undan Vilmundi frá Feti og Flautu frá Dalbæ. Þeirra besti tími í 100 metra skeiði er 7,33 sekúndur settur á Íslandsmóti árið 2024.
Daníel Ingi Smárason og Hrafn frá Hestasýn keppa fyrir hönd Svíþjóðar Hrafn er fjórtán vetra gamall undan Forseta frá Vorsabæ II og Dúkku frá Borgarnesi. Ræktendur eru þau Alexander Hrafnkelsson og Ólöf Guðmundsdóttir en Daníel Ingi er eigandi. Besti tími sem þeir hafa sett í 100 metra skeiði er 7,47 sekúndur á móti í Svíþjóð í vor.
Guðmundur Einarsson keppir fyrir hönd Svíþjóðar. Hestur hans er Draumur fra Tängmark 11. vetra gamall stóðhestur undan Döggva frá Ytra-Bægisá og Viðju från Tavelsjö. Ræktandi hans er Tängmark Irene en eigandi er Guðmundur Einarsson. Þeir hafa náð hörku tímum í 100 metra skeiði og á sænska meistaramótinu í ár hlupu þeir á tímanum 7,34 sekúndur.
Laura Enderes og Fannar Von Der Elschenau keppa fyrir hönd Þýskalands. Hann er undan Hrit vom Schlossberg og Flugu frá Hvolsvelli og er fimmtán vetra gamall. Þau hafa hraðast farið á tímanum 7,46 sekúndum.
Það er því ljóst að keppni í 100 metra skeiði verður æsispennandi og hart barist um verðlaunasæti. Þátttakendur koma víða að og tímarnir sem þeir hafa náð sýna að litlu mun muna á efsta sætinu og hinum.