Hestadagar í Víðidal – heimsmeistarar veita innblástur

Næstkomandi laugardag, þann 13. september, verður viðburðurinn Hestadagar haldinn á félagssvæði hestamannafélagsins Fáks í Víðdal í Reykjavík. Dagskráin verður fjölbreytt og miðar að því að veita hestamönnum innblástur og fróðleik, með áherslu á kennslusýningar, fyrirlestra og að lokum sölusýningu hrossa.
Á meðal þeirra sem fram koma fyrir hádegi eru Anne Stine Haugen og Jón Ársæll Bergmann, sem bæði urðu heimsmeistarar nú í ágúst. Þau eru bæði þaulreyndir knapar sem hafa unnið til fjölda verðlauna á keppnisvellinum.
Anne Stine mun í fyrirlestri sínum segja frá sinni persónulegu vegferð, allt frá uppvexti sínum í Noregi í kringum hesta, til þess að verða einn fremsti knapi í heiminum í dag. Jón Ársæll mun hins vegar beina sjónum að því hvernig hann byggir upp keppnishross sín til að standa í fremstu röð.
Skipuleggjendur leggja áherslu á að viðburðurinn sé fyrir alla sem vilja auka við fróðleik sinn og ná sér í innblástur nú á haustdögum þegar frumtamningar og uppbygging hesta er framundan.
Dagskrá Hestadaga:
-
10:00 – 13:00 Kennslusýningar og fyrirlestrar
-
13:00 – 14:00 Hádegishlé
-
14:00 – 17:00 Sölusýning
Aðgangseyrir er 2.500 krónur og miðasala fer fram í anddyri reiðhallarinnar í Víðidal. Ef veður leyfir verður sölusýningin haldin á keppnisvellinum, en annars fer hún fram innandyra í reiðhöllinni.
Fleiri atriði dagskrárinnar verða kynnt á næstu dögum á vef Eiðfaxa. Þá má nálgast nánari upplýsingar í viðtali Arnars Bjarka við skipuleggjendurna Sigurð Vigni Matthíasson og Börlu Isenbugel með því að smella [hér].