Hestadagar í Víðidal – Innblástur og fróðleikur

Næstkomandi laugardag, þann 13. september, verður viðburðurinn Hestadagar haldinn á félagssvæði hestamannafélagsins Fáks í Víðdal í Reykjavík. Dagskráin verður fjölbreytt og miðar að því að veita hestamönnum innblástur og fróðleik, með áherslu á kennslusýningar, fyrirlestra og að lokum sölusýningu hrossa.
Á meðal þeirra sem fram koma fyrir hádegi eru Larissa Silja Werner, tamningamaður og reiðkennari, og Þorvaldur Kristjánsson, hrossaræktarráðunautur.
Larissa Silja mun sýna fyrstu skrefin með ungan hest til að verða góður reiðhestur en haustið er tími tamninga og því kjörið tækifæri fyrir þá sem eru að byrja með unga hesta að koma að horfa, læra og spyrja spurninga. Þorvaldur Kristjánsson mun deila þekkingu sinni á sköpulagi hrossa og áhrifum þess á ganghæfileika.
Skipuleggjendur leggja áherslu á að viðburðurinn sé fyrir alla sem vilja auka við fróðleik sinn og ná sér í innblástur nú á haustdögum þegar frumtamningar og uppbygging hesta er framundan.
Í hádeginu mun Járningarmannafélag Íslands sýna heitjárningu á hesti og Silli Kokkur verður með veitingarnar á staðnum. Eftir hádegi er svo sölusýning sem engin ætti að láta fram hjá sér fara. Hlökkum til að sjá ykkur.
Dagskrá Hestadaga:
-
10:00 – 13:00 Kennslusýningar og fyrirlestrar
-
13:00 – 14:00 Hádegishlé
-
14:00 – 17:00 Sölusýning
Aðgangseyrir er 2.500 krónur, frítt fyrir börn og unglinga 16 ára og yngri, og miðasala fer fram í anddyri reiðhallarinnar í Víðidal. Ef veður leyfir verður sölusýningin haldin á keppnisvellinum, en annars fer hún fram innandyra í reiðhöllinni.
Fleiri atriði dagskrárinnar verða kynnt á næstu dögum á vef Eiðfaxa. Þá má nálgast nánari upplýsingar í viðtali Arnars Bjarka við skipuleggjendurna Sigurð Vigni Matthíasson og Börlu Isenbugel með því að smella [hér].