Hlutfall sýndra hrossa úr árgangi hækkar

Sindri frá Hjarðartúni er hæst dæmda hrossið úr árgangi fæddum 2015 en í þeim árgangi er hæsta hlutfall sýndra hrossa.
Kynbótadómar hrossa er mat á því hversu vel hross falla að ræktunarmarkmiði íslenska hestsins. Til þess að fá sem best mat á því hvar stofninn stendur hverju sinni er mikilvægt að fá sem flest hross til dóms. Raunin er þó sú að tiltölulega lítið hlutfall fæddra hrossa mætir til dóms.
Hér í þessari stuttu grein skoðum við þessa þróun í tíu árgöngum hrossa fæddra á Íslandi á árabilinu 2010-2019. Ástæðan fyrir því að þessi árabil voru lögð til grundvallar er sú að nú ættu öll þessi hross að vera kominn til tamningar og þjálfunar og línur farnar að skýrast í hvaða hlutverk þau henta.
Hlutfall sýndra hrossa úr árgangi hækkar
Á þessu árabili fækkaði folöldum í árgangi markvisst frá því að vera rúmlega 9000 árið 2010 niður í það að vera undir 6000 frá árinu 2016-2019. Á sama tíma eykst hlutfall þeirra hrossa sem mæta til dóms úr því að vera rétt rúm 8% úr 2010 árgangi í það að vera rúmlega 11% í árgangi 2015. Í árgöngunum þar á eftir er hlutfallið svipað en lækkar svo við árgang fæddan 2019. Líklegt verður að teljast að sú prósentutala hækki þegar fram líða stundir, þar sem einhver hross úr þeim árgangi eiga enn eftir að skila sér til dóms.
Í samtali við Þorvald Kristjánsson hafði hann eftirfarandi um ástæður þessarar hlutfalls fjölgunar að segja.
„Upp úr bankahruninu fór að draga saman í fjölda hryssna sem notaðar eru í ræktun, ekki bara hér á Íslandi heldur um heim allan þvert á hrossakyn. Líklegast er að fólk hafi byrjað á því að grisja úr lakari hryssurnar sem í ræktun voru og eftir standa því betri hryssur. Á árunum eftir 2010 hækkar all verulega hlutfall þeirra 1.verðlauna hryssna sem eru í ræktun og í dag er hlutfall þeirra hér á landi um 25%, það er því verið að skrá um 1350-1400 folöld á ári undan þeim.
Þetta gæti því verið ein skýring þess að hlutfall sýndra hross úr árgangi hækkar, því gæði undaneldishryssurnar hefur mikið um útkomu pörunar að segja. Gæði hrossa hefur því aukist, þótt forvalið til dóms sé alltaf drjúgt eru greinilega alltaf fleiri og fleiri hross sem ræktendur mæta með til dóms. Aðalmálið þar að ég tel er að lækka hlutfall ósýndra hryssna í ræktun og fá með því meiri gæði. Aðal keppikeflið er auðvitað að hækka þetta hlutfall ennþá meira og við þurfum að hafa augun opin fyrir því hvernig við gerum það til framtíðar.“
Hér fyrir neðan má sjá einfalt graf sem sýnir hlutfall sýndra hrossa úr árgangi.
