Ný bók um Hermann Árnason: Með frelsi í faxins hvin

Myndin hér að ofan prýðir kápu bókarinnar og er tekinn af Jónu Sigþórsdóttur er riðið var í Þórsmörk
Bókaútgáfan Hólar gefur út innan skamms bókina Með frelsi í faxins hvin – Riðið í strauminn með Hermanni Árnasyni. Höfundur er Hjalti Jón Sveinsson, sem er vel þekktur af skrifum sínum um hesta og hestamennsku. Hjalti Jón Sveinsson starfaði árum saman sem ritstjóri tímaritanna Hestsins okkar og Eiðfaxa og hefur áður skrifað bækur um íslenska hestinn og hestamennsku, meðal annars ásamt Gísla B. Björnssyni í stórverkinu Íslenski hesturinn.
Í bókinni er dregin upp heildstæð mynd af Hermanni Árnasyni, hestamanni frá Vík í Mýrdal, sem hefur margsinnis vakið athygli á landsvísu fyrir hugmyndir sínar, uppátæki og reynslu úr hestaferðum. Fjallað er um hvernig hann elur, temur og þjálfar hross sín, og sagt frá félögum hans og vinum sem lagt hafa honum lið á ferðalögum vítt og breitt um landið.
Sérstaklega er greint frá stórum ferðum sem Hermann hefur skipulagt, þar á meðal Stjörnureiðinni um landið endilangt, Flosareiðinni um slóðir Njáls sögu og Vatnareiðinni frá Hornafirði til Hellisheiðar. Í bókinni má finna fjölmargar ljósmyndir og kort sem gera lesendum kleift að fylgja eftir leiðangrunum og áskorunum sem ferðalangar mættu á allt að 40 daga reiðum.
Bókin er tileinkuð minningu Guðlaugs Gunnars Björnssonar, Gunna Björns, sem lést á síðasta degi hestaferðar hópsins Með frelsi í faxins hvin í ágúst 2024. Hann var nánasti félagi Hermanns um margra ára skeið og tók þátt í fjölda ferða með honum, fjölskyldum og vinum.
Nánari upplýsingar um bókina má finna á hermannsbok.is.