Þóroddur fallinn

Samkvæmt Worldfeng var hinn mikli gæðingur og heiðursverðlaunahestur Þóroddur frá Þóroddsstöðum felldur nú síðsumars. Þóroddur er undan Oddi frá Selfossi og Hlökk frá Laugarvatni og er það Bjarni Þorkelsson sem er ræktandi hans. Hann er mörgum eftirminnilegur sem hann sáu og þá sér í lagi á Landsmóti árið 2004 þar sem hann var ein af stjörnum þessa móts.
Stjarna Landsmóts 2004
Þóroddur kom fyrst fram fjögurra vetra gamall á kynbótasýningu á Gaddstaðaflötum og hlaut þegar þá 1. verðlaun með aðaleinkunnina 8,16. Ári síðar, aðeins fimm vetra, sló hann rækilega í gegn þegar hann hlaut 8,62 í aðaleinkunn í Hafnarfirði. Á Landsmóti 2004 varð hann ein helsta stjarna mótsins, með 9,04 fyrir hæfileika og aðaleinkunn 8,74. Þar stóð hann efstur stóðhesta í sínum aldursflokki og varð um leið hæst dæmdi fimm vetra stóðhestur allra tíma.
Á Landsmóti 2006 mætti Þóroddur þá sjö vetra gamall til leiks í A-flokki gæðinga og tryggði sér annað sætið í úrslitum með einkunnina 9,04. Knapi hans bæði í kynbótadómi og keppni var Daníel Jónsson sem hafði m.a. þetta um Þórodd að segja í tölublaði Eiðfaxa árið 2020.
„Þóroddur er trúlega sá hestur sem markaði hvað dýpst spor í mig sem reiðmann. Það var hann sem kom mér á bragðið, en hann var fyrsti hesturinn sem ég sýni í afrekstölur. Dásemdar skepna, frábær gæðingur.“

Árangri fagnað á Landsmóti árið 2004 þar sem Þóroddur var ein helsta stjarna mótsins
Þóroddur hlaut 1. verðlaun fyrir afkvæmi árið 2011 og heiðursverðlaun árið 2012. Í afkvæmaorðum hans segir meðal annars: „Flest afkvæmi Þórodds eru alhliðageng með rúmu taktgóðu tölti og skrefmiklu brokki og feti. Skeiðgeta er afbragð og skeiðið ferðmikið og öruggt. Hrossin eru ásækin í vilja og fara vel, sum með úrvals fótaburð. Þóroddur gefur reist, langvaxin og fótahá, rúm alhliða ganghross, skeiðið best.“
Hann skilur eftir sig 527 afkvæmi, þar af 112 sýnd í fullnaðardómi. Hæst dæmdu afkvæmin eru stóðhestarnir Arnoddur frá Auðsholtshjáleigu (8,51), Hringur frá Skarði (8,48) og Grunnur frá Grund II (8,47). Af dætrum hans sem hafa reynst úrvals vel í ræktun má nefna Skynjuni frá Skipaskaga, Þórdísi frá Skagaströnd, Gjöf frá Vindási og Aþenu frá Akureyri. Þá hefur sonur hans, Lord frá Vatnsleysu, hlotið 1. verðlaun fyrir afkvæmi.
Þóroddur er einn af eftirminnilegri stóðhestum þessarar aldar og setti ný viðmið um hinn íslenska alhliða gæðing.

Þóroddur hlýtur heiðursverðlaun á Landsmóti árið 2012