Tólf hryssur hljóta heiðursverðlaun í ár

  • 28. september 2025
  • Fréttir

Álfhildur frá Syðri-Gegnishólum er efst heiðursverðlaunahryssa í ár á myndinni setinn af Olil Amble á Landsmóti árið 2014

Nýtt kynbótamat birtist í Worldfeng í gær. Samkvæmt því stefnir í að tólf hryssur bætist í hóp þeirra sem heiðursverðlauna hafa hlotið fyrir afkvæmi. Til að hljóta heiðursverðlaun þarf hryssa að hafa að lágmarki 116 stig í aðaleinkunn kynbótamats eða aðaleinkunn kynbótamats án skeiðs og að eiga að minnsta kosti fimm sýnd afkvæmi.

Hryssurnar verða heiðraðar þegar hin árlega fagráðsstefna hrossaræktarinnar fer fram laugardaginn 8.nóvember.

Röðun þeirra ræðst af aðaleinkunn og því ljóst að Álfhildur frá Syðri-Gegnishólum stendur efst heiðursverðlaunahryssa í ár með 128 stig í aðaleinkunn og verður með því Glettubikarshafi. Álfhildur er undan Orra frá Þúfu og Álfadísi frá Selfossi en ræktandi hennar og eigandi er Olil Amble. Álfhildur fetar þar með í fótspor móður sinnar sem hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi árið 2011 og fjölmargra systkina sinna sem hlotið hafa afkvæmaverðlaun að ógleymdum föður hennar, Orra frá Þúfu, sem hlaut heiðursverðlaun einnig og fjöldi afkomenda hans.

Hryssurnar sem hljóta heiðursverðlaun í ár má sjá hér fyrir neðan en vert er einnig að minnast þess að þær María frá Feti, Hrund frá Ragnheiðarstöðum og Þrift frá Hólum hefði líka hlotnast þessi heiður í ár væru þær á lífi. Þá er ein hryssa stödd erlendis sem náð hefur þessum áfanga en það er Garún frá Árbæ.

Heiður ræktenda og eigenda þessara hryssa er mikill. Til þess að ná þessum áfanga þarf að leggja á sig mikla vinnu fyrst við að para hryssurnar, koma afkvæmum þeirra á legg, til tamningar og svo sýninga. Starfsfólk Eiðfaxa vill því óska öllum þeim til hamingju með áfangann.

Heiðursverðlaunahryssur ársins 2025

 

Nafn

 

Blup Blup – skeið
Álfhildur frá Syðri-Gegnishólum 128 133
Brigða frá Brautarholti 122 115
Aþena frá Akureyri 120 114
Telma frá Steinnesi 120 119
Þyrnirós frá Þjóðólfshaga 119 123
Gnýpa frá Leirulæk 119 110
Sif frá Akurgerði 118 114
Nótt frá Varmalæk 116 122
Vissa frá Lambanesi 116 106
Kolka frá Hákoti 116 111
Viska frá Skipaskaga 116 114
Lukka frá Kálfsstöðum 110 118

 

*Birt með fyrirvara um mannleg mistök höfundar fréttar.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar