Sigurbjörn Eiríksson nýr formaður landsliðsnefndar

Kristinn Skúlason hefur óskað eftir að láta af formennsku og setu í landsliðsnefnd eftir átta ár í sæti formanns landsliðsnefndar. Þar áður starfaði hann sem formaður Meistaradeildar í 6 ár. Þetta kemur fram á vef Landssambands hestamanna.
Kristinn segist þakklátur fyrir árin í starfi formanns landsliðsnefndur en segir einnig: „Á þessum átta árum hafa verið gerðar miklar breytingar á starfi landsliðsnefndar og umgjörð afreksstarfsins. Það að hafa þessa starfsemi í gangi allt árið hefur lyft íþróttinni og virðingu fyrir henni á hærra stig svo eftir er tekið bæði hérlendis og erlendis og innan raða ÍSÍ. Ég hef unnið með þremur formönnum LH, Lárusi, Guðna og Lindu og þremur landsliðsnefndum og vil ég þakka samstarf með góðu fólki í stjórn, nefnd og á skrifstofu.
Það er mikill heiður að vinna með góðu íþróttafólki þar sem þarf ekki lengur að nefna reglur og skyldur, allir knapar í landsliðshópunum eru miklar fyrirmyndir fyrir Landssamband hestamannafélaga út á við og fyrirtæki og almenningur taka eftir því“.
Kristni eru færðar góðar þakkir fyrir óeigingjörn störf í þágu LH og um leið þökkum við framlag Drífu Dan eiginkonu hans en saman hafa þau lagt mikinn tíma og elju í störf í þágu hestamanna.
Stjórn LH hefur falið Sigurbirni Eiríkssyni að taka við formennsku í landsliðsnefnd og er hann boðinn velkominn til starfa. Sigurbjörn hefur mikla reynslu af félagsstörfum í þágu hestafólks, hann var formaður Meistaradeildar í þrjú ár, er stjórnarmaður í Hestamannafélaginu Spretti, situr sem varamaður í stjórn LH, tók sæti í landsliðsnefnd að loknu landsþingi 2024 og hefur gegnt stöðu varaformanns landsliðsnefndar við hlið Kristins undanfarið ár.