Staða landsliðsþjálfara laus – hver tekur við keflinu?
Mikil uppbygging hefur átt sér stað í kringum afreksstarf LH og þá ekki síst landsliðsins
Staða landsliðsþjálfara Íslands í hestaíþróttum er nú laus eftir að Sigurbjörn Bárðarson tilkynnti að hann væri hættur sem landsliðsþjálfari Íslands eftir farsæl átta ár.
Í pistli frá nýskipuðum formanni landsliðsnefndar, Sigurbirni Eiríkssyni, kom skýrt fram að stefnt er á áframhaldandi uppbyggingu í landsliðsmálum hjá LH en nú hefði verið stofnaður vinnuhópur sem starfaði við hlið landsliðsnefndar með það að markmiði að fara í heildarskoðun á afreksstarfinu. Í þeim sama pistli gaf Sigurbjörn það til kynna að ef til vill yrði einhver breyting á stöðu landsliðsþjálfara þar sem því var velt upp að fleiri en einn einstaklingur kæmu að landsliðsvali eða þá að einn og sami þjálfarinn kæmi að vali á bæði A-landsliði og U-21 árs landsliði. Hver lendingin verður kemur líklega í ljós í náinni framtíð en þangað til ákvað Eiðfaxi að hlera nokkra hestamenn um það hverjir væru líklegastir til þess að taka sér stöðu landsliðsþjálfara, að því gefnu að staðan verði áfram til í óbreyttri mynd.
Þau nöfn sem oftast voru nefnd eru eftirfarandi (í stafrófsröð) og með fylgja röksemdir þeirra sem við var rætt:
Anton Páll Níelsson: “Hefur verið á meðal okkar virtustu reiðkennara um langt árabil og hefur oft verið viðloðandi landsliðið sem hluti af þjálfarateymi. Hefur reynsluna og þekkinguna sem þarf.”
Eyjólfur Ísólfsson: „Reynslubolti og hafsjór af fróðleik. Sannkölluð goðsögn sem hestamaður og reiðkennari, ef hann væri til í starfið, ætti þetta ekki að vera spurning.“
Eysteinn Leifsson: “Kemur úr annarri átt en hinir en var lengi í landsliðsnefnd og starfaði náið með m.a. Einari Öder og Sigga Sæm. Óumdeildur maður og vinsæll meðal allra.”
Hinrik Bragason: „Hefur sjálfur keppt á ótal mörgum heimsmeistaramótum og orðið heimsmeistari. Hefur mikla þekkingu á öllu í kringum landsliðið og þekkir hvern krók og kima hestaheimsins.”
Magnús Skúlason: „Áttfaldur heimsmeistari og því aldeilis ekki nýgræðingur í greininni! Hefur verið búsettur í Svíþjóð lengi og kemur því að starfinu með fersk augu og utan við allar heimaklíkur.“
Olil Amble: „Frábær reiðkennari og hestakona og hefur verið á meðal þeirra fremstu í sínu fagi um áratugaskeið. Væri frábær kostur í stöðu landsliðsþjálfara.“
Sigurbjörn Bárðarson: „Til hvers að sækja vatnið yfir lækinn? Sigurbjörn hefur skilað frábærum átta árum með liðið og ætti að fá tækifæri til þess að stíga sinn hinsta dans með liðið á HM í Þýskalandi, líkt og hann hefur gefið út fyrir að vilja.“
Sigurður Vignir Matthíasson: „Maðurinn sem fær alla til að trúa á verkefnið og hefur oft sinnt því hlutverki innan landsliðsins. Fáir betri í hóp og er auk þess hokinn af reynslu í keppni!
Þórarinn Eymundsson: „Ótrúlega glöggur á hesta og hefur margoft sinnt stöðu þjálfara hjá landsliðinu. Rómaður fyrir natni sína og nákvæmni og hefur hjálpað ófáum knapanum að leysa úr því sem upp kemur á mótsstað.“
Fleiri nöfn sem komu upp í umræðunni.
Atli Guðmundsson, Bergur Jónsson, Bergþór Eggertsson, Hekla Katharína Kristinsdóttir, Hulda Gústafsdóttir, Ísólfur Líndal Þórisson, Mette Mannseth, Sigurður Marínusson, Sigurður Sigurðarson, Sigurður Sæmundsson, Rúna Einarsdóttir.
Skagfirðingur hlýtur æskulýðsbikar LH 2025
Geysisfélagar verðlaunaðir á uppskeruhátíð
Efsta-Sel ræktunarbú Spretts 2025