Niðurstöður staðfesta CBDA í undirburði hjá Glað frá Kálfhóli

  • 7. nóvember 2025
  • Fréttir

Anna Lisa Zingsheim og Glaður frá Kálfhóli 2. Ljósmynd: Henk & Patty

Þungu fargi létt af Önnu Lisu

Fyrir rúmum mánuði síðan birtist frétt og umfjöllun á vef Eiðfaxa þess efnis að hestur Önnu Lisu Zingsheim, Glaður frá Kálfhóli 2, hefði reynst jákvæður á lyfjaprófi á heimsmeistaramóti íslenska hestsins. Í kjölfarið á því var allur árangur Önnu á mótinu felldur niður, en hún keppti í tölti þar sem þau hlutu annað sætið í úrslitum.

Efnið sem fannst í Glað og var ástæða jákvæðrar svörunar á lyfjaprófi var Cannabidiolicsýra (CBDA) sem fannst í blóði. Anna Lisa sagði í áður nefndu viðtali við Eiðfaxa að hún héldi að hálmundirburður sem hún notaði í stíunni á HM væri eina hugsanlega orsök þess að CBDA hefði fundist. Þá sagðist hún einnig ætla að senda sýni úr undirburðinum til skoðunar á rannsóknarstofu til að fá úr því skorið hvort hennar grunur væri á rökum reistur.

Nú eru þær niðurstöður komnar og samkvæmt pósti á samfélagsmiðli Önnu Lisu reyndist það sýni vera jákvætt fyrir CBDA. Í sömu tilkynningu segir hún að fyrirtækið sem seldi undirburðinn hafi auglýst hann sem hreinan og lausan við ólögleg efni. Þá segist hún vera léttari í hjarta að vita núna hver orsökin var fyrir því að efnið fannst í blóði Glaðs.

Í samtali við blaðamann Eiðfaxa sagðist Önnu vera mikið létt nú þegar hún hafi fengið staðfestingu á því að hún hafi ekki gefið Glaði neitt sem ekki væri leyfilegt.
„Mér líður vel með það að geta sannað að ég hafi ekki gefið Glaði neitt ólöglegt. Ég hef alltaf sagt það, en auðvitað er til fólk sem hélt því fram að ég hefði gefið honum ólögleg lyf að ásettu ráði. Það er því mjög ánægjulegt að hafa nú sannanir fyrir því að svo er ekki,“ segir Anna Lisa.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar