Fréttir af afreks- og landsliðsnefnd LH

  • 7. nóvember 2025
  • Fréttir

Það er í mörg horn að líta í afreksmálum sérsambands af þeirri stærðargráðu sem Landssamband Hestamannafélaga er.

Nú á haustdögum hefur landsliðsnefnd LH unnið að skoðun afreksmálanna í heild sinni og fjölmargir komið að þeirri vinnu ásamt starfshópnum sem skipaður var til verksins af stjórn LH.

Samningar landsliðsþjálfaranna voru í gildi fram í lok september 2025 og runnu þar með sitt skeið og í kjölfarið hafa ýmsar hliðar afreksmálanna verið skoðaðar með það í huga að styrkja starfið enn frekar.

Afreks- og landsliðsnefnd hefur á þessum tíma unnið skýran ramma um afreksstarfið byggt á afreksstefnu LH og ÍSÍ, skilgreint verkefni og skyldur þjálfara landsliðanna ásamt verkefnum og skyldum afreksstjóra LH.

Þar að auki haf ýmsir verkferlar verið bættir innan afreksstarfsins og þeirra hópa sem starfrækir eru innan þess.

Valteymi var sett á laggirnar til aðstoðar þjálfurum hópanna við val í afrekshópa. Valteymið samanstendur af þjálfara hvers hóps ásamt formanni landsliðsnefndar og afreksstjóra LH. Valteymið aðstoðar við gagnaöflun, greiningu árangurs og undirbúning valferlis fyrir hópana og hefur ráðgefandi hlutverk. Landsliðsþjálfari/yfirþjálfari Hæfileikamótunar hefur þó endanlegt ákvörðunarvald um val í hópa sína og ber ábyrgð á því vali.

Hóparnir sem starfa undir afreksstarfi LH eru Hæfileikamótun LH, U21-landsliðið og A-landslið.

42 verðandi afreksknapar á aldrinum 14-17 ára voru á dögunum teknir inn í Hæfileikamótun LH sem samanstendur af tveimur hópum.

Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar er fullur tilhlökkunnar inn í starfsárið sem hefst þegar fyrsti hópur fer námsferð að Hólum í komandi viku.

Svo verða vinnuhelgar eftir áramótin með eigin hest og tveir stórir fræðsludagar með sýnikennslum, fyrirlestrum og foreldrafundi.

Hvað landsliðin tvö varðar er það skýrt markmið landsliðsnefndar að sterkustu knapar landsins hverju sinni skipi landsliðshópa LH sem starfrækir eru yfir árið.

Landsliðsumgjörðin veitir hópunum reglulega fræðslu og utanumhald, vinnur að fjáröflunarmálum með ýmsum viðburðum og veitir knöpum hópanna tækifæri á að efla og styrkja sig sem afreksknapa árið um kring samhliða því að sinna íþróttinni á sínum heimavelli.

Því er það stefnan að landsliðshóparnir nái yfir afreksknapana okkar og eðli málsins samkvæmt þrengjast svo hóparnir þegar líður að stórmótum líkt og HM um þá knapa og hesta sem eru í baráttu um sæti í lokahóp og staðfest er hvaða hestar eru í boði inn í verkefnið.

Hlutverk hvers knapa þegar kemur að lokahóp fyrir stórmót skal vera skýrt og við kynningu lokahópa verða varaknapar tilkynntir og þeir hafa gríðarlega mikilvægt hlutverk alveg fram að brottför hrossa frá Íslandi á HM.

Nú vinnur afreks- og landsliðsnefnd að því að finna landsliðsþjálfara U21 og A-landsliðanna til starfa, og áhugasömum þjálfaraefnum er bent á að hafa samband við Sigurbjörn Eiríksson formann landsliðsnefndar landslidsnefnd@lhhestar.is eða Berglindi Karlsdóttur framkvæmdarstjóra LH berglind@lhhestar.is og láta þannig vita að sér.

 

www.lh.is

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar